Nýja félagið

Um daginn kom ég að því að stofna félag. Og það sem meira er, ég tók meira að segja sæti í fyrstu stjórn þess – vinnustjórn sem sitja mun þar til haldinn hefur verið skikkanlegur aðalfundur á vormisseri. Þetta er félagið „Hagstund: hagsmunafélag stundakennara á háskólastigi“.

Fyrstu viðbrögð mín, þegar ég var beðinn um að slást í hópinn, voru á þá leið að málið varðaði mig ekki neitt. Ég hef vissulega gripið í stundakennslu, bæði í sagnfræðinni og við Raunvísindadeild, en ég hef alltaf litið á það sem hálfgert hobbý – ágætis leið til að halda mér í æfingu og skemmtilega tilbreytingu frá „alvöru“ vinnunni minni. Launaseðlarnir frá Háskólanum hafa svo sem ekki gert mikið til að breyta þessu viðhorfi mínu. Stundakennari með MSc-gráðu fær 1.600 krónur á tímann og ef ég man rétt er ætlaður álíka langur tími til undirbúnings og kennslustundin sjálf.

Háskólinn er að miklu leyti rekinn af mönnum eins og mér, sem líta á stundakennslu sem hálfgerða sjálfboðavinnu sem gaman er að grípa í með öðru. Þetta gerir skólanum kleift að borga lítið fyrir vinnuna og sleppa því að veita þessum starfskröftum nokkur sérstök réttindi eða aðstöðu. Það má því segja að ég sé hluti af vandamálinu.

Þegar ég hugsaði málið betur sá ég að auðvitað gengur ekki að þetta sé svona. Þótt við hobbý-stundakennararnir séum í öruggu skjóli vinnuveitenda úti í bæ, er ótækt að hópur fólks þurfi að reyna að hafa ofan af fyrir sér í þessu ati á skítakaupi. Réttleysið er líka óþolandi. Hver er t.d. staða mín sem stundakennara ef ég flýg á hausinn í miðri kennslustund og brýt í mér hvert bein? Er ég tryggður af Háskólanum? Nei, svo sannarlega ekki.

Háskólinn borgar ekki launatengd gjöld af launum stundakennara. Stundakennarar hafa ekki veikindarétt. Stundakennarar hafa engan trúnaðarmann eða fulltrúa gagnvart Háskólanum. Stundakennarar fá litlar eða engar upplýsingar um réttindi sín, skyldur, vinnuaðstöðu eða hvernig best sé að snúa sér varðandi tæknileg efni. Stundakennarar fá ekki einu sinni jólakort frá rektor.

Þess vegna er ég í Hagstund. Bendi á heimasíðuna og hvet aðra hobbý-kennara til að ganga í félagið. (Við verðum að minnsta kosti að þvinga fram jólakortin…)