Hálendingurinn 2010 – stund ákvörðunar: IV.hluti (b)

Áfram heldur hin strangvísindalega yfirferð liðanna á HM í Suður-Afríku. Að þessu sinni verður tekinn fyrir hópur skemmtilegra liða sem flest hljóta að teljast minni spámenn.

18. Mexíkó

Mexíkó er kerfisbundið vanmetið þegar kemur að HM. Ef árangur liðinna ára er skoðaður kemur í ljós að þetta er lið sem fastlega má búast við í fjórðungsúrslitin. Staða þess á heimslistanum er í samræmi við það. En vegna þess að flestir leikmenn Mexíkó spila í heimalandinu, reikna fæstir með stórafrekum.

Reyndar eru alls kyns vandamál búin að hrjá mexíkóska landsliðið og spurning hvað sænski skúnkurinn Sven Göran Eriksson hefur náð að valda miklu tjóni. Giska á sextán liða úrslit og naumt tap þar.

Niðurstaða: Mexíkó verður ekki uppáhaldslið, styð þá samt til allra góðra verka.

19. Nígería

Sem fyrr segir, má ætla að afrísku liðin muni njóta þess að leikið verði í Suður-Afríku. Nígería er ekki eins sterkt um þessar mundir og fyrir fimmtán árum síðan. Gætu sloppið upp úr riðlinum en varla meira en það.

Niðurstaða: Nígería verður ekki uppáhaldslið, mættu þó koma manni þægilega á óvart

20. Norður-Kórea

Hóhóhó… hér er þátttökuland með sögu. Norður-Kóreuliðið 1966 olli straumhvörfum með því að sýna að lið frá þriðja heiminum gætu átt erindi á HM. Því miður varð ekkert úr því að Norður-Kórea keppti á HM 1970, þrátt fyrir að vera áfram langbesta lið Asíu – því þeir gáfu viðureign gegn Ísrael af pólitískum ástæðum.

Furðulegar fregnir berast frá Kóreu þess efnis að verið sé að reyna að fá Sven Göran Eriksson í þjálfarateymið. Það má aldrei gerast.

Sama hvernig fer hjá Norður-Kóreu að öðru leyti, þá VERÐUR lið þeirra að lenda í riðli með Bandaríkjunum. Það yrði móðir allra knattspyrnuleikja!

Niðurstaða: Norður-Kórea verður ekki uppáhaldslið, en ég mun fylgjast grannt með þeim

21. Nýja-Sjáland

Slakasta liðið á HM og líklega fá dæmi á seinni árum um jafnlétta leið nokkurs landsliðs á úrslitakeppni. Nýsjálendingar eru fámenn þjóð og fótbolti varla nema fjórða vinsælasta hópíþróttinn. Stig yrði stórafrek. Megi Óðinn gefa að það verði gegn einhverjum montnu stórliði.

Niðurstaða: Nýja-Sjáland verður ekki uppáhaldslið, mættu samt stríða andstæðingum sínum

22. Paraguay

Paraguay var ekki eftirminnilegt á HM 1986, en komst þó upp úr riðlakeppninni. Síðar tengdi maður Paraguay aðeins við hinn kostulega markvörð Chilavert, sem tók aukaspyrnur við mark andstæðinganna (sem maður hafði aldrei séð áður). Lið þeirra er nær alveg laust við þekkt nöfn.

Þetta er hins vegar flott fótboltalið sem fór vandræðalaust upp úr sterkri Suður-Ameríkuforkeppni. Þeir geta sótt mjög hratt upp völlinn og ógna sífellt. Hættan með svona lið er samt að þegar komið verði í úrslitakeppnina, pakki það í vörn.

Niðurstaða: Paraguay verður ekki uppáhaldslið, gætu þó alveg orðið spútniklið

Og hefjast þá umræður.