Hver verður Hálendingurinn 2010? Komið er að fimmtu grein af sex og spennan vex sífellt (sem er reyndar lygi – enda nennir varla nokkur maður að kommenta á nýjustu greinarnar…)
Núna er röðin hins vegar komin að fimm Evrópulöndum…
23. Portúgal
Brons á HM fyrir 45 árum og silfur á EM á heimavelli er það eina sem tilkall Portúgala til stórveldistitils í heimsknattspyrnunni byggist á. Að öllu eðlilegu ætti Portúgal að vera flokkað einhvers staðar á milli Belgíu og Úkraínu á afrekalistanum, en þökk sé öflugum einstaklingum (Figo og Ronaldo) hafa menn hneigst til að ofmeta liðið.
Sú var tíðin að Portúgal var skemmtilegt lið á stórmótum sem reyndi að sækja. Í dag eru þeir leiðindavarnarlið sem gerir út á föst leikatriði.
Niðurstaða: Portúgal verður ekki uppáhaldslið, má falla út hið fyrsta.
24. Serbía
Nú vandast málin. Fyrir nokkrum árum setti ég mér þá vinnureglu varðandi stórmót í fótbolta að ég myndi alltaf byrja á að horfa til þess hvort einhver leikmaður Fram eða Luton væri í leikmannahópnum. Á grunni þess hélt ég með Trinidad & Tobago (sem hafði Carlos Edwards innanborðs) á HM 2006.
Enginn núverandi Framari eða Luton-maður verður á HM 2010. En í þjálfarateymi Serbíu er Raddy Antic. Mark hans fyrir Luton gegn Manchester City er líklega ástæða þess að ég held með Luton en ekki e-m öðrum labbakútum á Englandi.
Ég hef því tilneigingu til að halda með hverjum þeim sem Raddy vinnur hjá – og þess vegna er rosalega erfitt að halda ekki með Serbum. En samt…
Niðurstaða: Serbía verður ekki uppáhaldslið, en með Raddy við stjórnvölinn vil ég sjá þá í fjórðungsúrslitum
25. Slóvakía
Það næsta sem við komumst því að sjá nýtt landslið á HM. Slóvakar eru með hörkulandslið en engar stjörnur. Einu Evrópuliðin sem ég get haldið með í seinni tíð eru lið eins og þetta – skítblankir Austur-Evrópubúar sem berjast með hjartanu,
Niðurstaða: Slóvakía verður ekki uppáhaldslið, en ég mun samt fylgjast vel með árangri þeirra
26. Slóvenía
Öskubuskuævintýrið á HM. Slóvenía er smáþjóð sem fer nú á sitt þriðja stórmót á furðuskömmum tíma. Allir Íslendingar hljóta að halda með Slóveníu – en vera þó meðvitaðir um að hvað sem öðru líður getur smáþjóð aldrei náð lengra en í 16-liða úrslitin eða þar um bil.
Niðurstaða: Slóvenía verður ekki uppáhaldslið, en mætti að ósekju komast áfram úr riðlunum.
27. Spánn
Spánverjar áttu svo sannarlega skilið að verða Evrópumeistarar 2008. Líklega verða þeir öflugasta lið Evrópu að þessu sinni og í fínum séns að taka titilinn – sem yrði mjög góður árangur hjá liði með besta árangur þriðja sæti 1950.
Hef samt aldrei verið sérstakur Spánverjaaðdáandi og sé ekki fram á að geta klappað fyrir liði þeirra.
Niðurstaða: Spánn verður ekki uppáhaldslið, en gæti unað þeim meistartatitls betur en mörgum.
Og þar með hefjast umræður: