Það er víst ekki eftir neinu að bíða með að ljúka úttektinni á liðunum á HM 2010, enda spenntir lesendur þegar farnir að fabúlera í athugasemdakerfinu um hvaða lið verði fyrir valinu.
28. Suður-Afríka
HM í ár er haldið í Afríku vagna þess að Sepp Blatter þurfti að tryggja sér atkvæði. (Ekki þar fyrir að það var svo sem sjálfsagt að Afríka fengi keppnina.) Ástæðan fyrir því að Suður-Afríka varð fyrir valinu en ekki t.d. Marokkó eða önnur Norður-Afríkulönd með sterkari fótboltainnviði var hins vegar snobbið fyrir Mandela.
Suður-Afríka verður vafalítið langslakasta gestgjafaliðið í sögu HM. Reyndar verður allt gert til þess að koma þeim áfram þegar dregið verður í riðla. Líklega mun það ekki skila öðru en að eitthvert tiltölulega slakt lið mun slugsast áfram í staðinn.
Niðurstaða: Suður-Afríka verður ekki uppáhaldslið, en vonandi bíða þeir ekki algjört afhroð
29. Suður-Kórea
Lið Suður-Kóreu á HM 1986 var skemmtilegt og minnisstætt. Kóreumenn hafa verið tíðir gestir í úrslitakeppninni, þótt árangurinn hafi verið misjafn. Fjórða sætið 2002 er eitt besta dæmi um lið sem nær að spila yfir getu. Þeir hljóta að hafa klárað heppniskvótann þá.
Niðurstaða: Suður-Kórea verður ekki uppáhaldslið, hef í sjálfu sér enga skoðun á þeim
30. Sviss
Svisslendingar urðu heimsmeistarar unglinga á dögunum og þjóðin er enn í sigurvímu. Taktík þeirra gengur venjulega út á að pakka í vörn og vona að marktækifærin verði til af sjálfu sér. Það er ferlega full fótbolti.
Niðurstaða: Sviss verður ekki uppáhaldslið, alveg óþarfi að fá meira en þrjá leiki með þeim.
31. Uruguay
Sagnfræðingar eru alltaf sökkerar fyrir þeim sem gera e-ð fyrstir allra. Heimsmeistararnir og gestgjafarnir 1930 hafa því sérstaka stöðu meðal knattspyrnuþjóða heims – dáldið eins og Grikkir á Ólympíuleikunum. Ég vil nú þegar hefja baráttu fyrir því að Uruguay haldi HM 2030.
Í mörg ár efti 1950-titilinn var Uruguay í hópi sterkustu landsliða, en síðustu áratugina hefur þetta verið erfiðara. Á HM 1990 hélt maður að allt væri að fara að smella. Uruguay voru mínir menn, með Enzo Fransescoli, sem var um tíma besti fótboltamaður í heimi. Sousa var líka frábær. En árangurinn á Ítaliu varð sár vonbrigði.
Uruguay er langt frá því að vera jafngott núna og fyrir tuttugu árum, en þetta er þétt lið sem getur sótt hratt. Það er sjálfsagt að stefna á fjórðungsúrslitin og þegar þangað er komið – tja, hver veit?
Niðurstaða: Uruguay verður uppáhaldsliðið. Hvar kaupi ég treyju?
32. Þýskaland
Enginn sannarlega góður maður getur haldið með Þýskalandi.
Niðurstaða: Þýskaland verður ekki uppáhaldslið, mætti þó gera gagn með því að fella út England eða Brasilíu