Álftanes+Reykjavík

Árið 1997 var sameining Reykjavíkur og Kjalarness samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu. Kjalnesingar voru þá afar illa staddir fjárhagslega og ljóst að sveitarfélagið yrði ekki á næstu árum fært um að standa undir þeirri þjónustu sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu gerðu kröfur um.

Þrátt fyrir skuldabyrðina, höfðu Kjalnesingar ekki sýnt því áhuga að sameinast Mosfellsbæ þótt eflaust hafi margir talið það rökréttasta kostinn. Lönd sveitarfélaganna liggja saman og Kjalnesingar sóttu ýmsa þjónustu til nágranna sinna. Þessi tregða á sér eflaust margar skýringar, ein þeirra er sú að stærðamunurinn hafi ekki verið nægilega mikill. Kjalnesingar hafi þannig séð fram á að verða jaðarsvæði í tiltölulega fámennu sveitarfélagi sem ætti erfitt með að reka svona útstöð.

Þótt öfugsnúið kunni að virðast, var Reykjavík það stór að tilhugsunin um að láta hana gleypa sig varð Kjalnesingum mun bærilegri en ef um nágrannana úr Mosfellssveitinni hefði verið að ræða. Reykjavík var sömuleiðis það öflug að hún gat leyft sér að ráðast í slíka sameiningu af myndarskap án þess að þurfa strax að hugsa um að skapa sér tekjur á móti með skipulagningu nýrra hverfa og stórframkvæmdum.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort sama staða kunni nú að vera að koma upp varðandi Álftanes.

Álftnesingar eru búnið að reiða sér hurðarás um öxl. Skuldirnar eru slíkar að eitt og óstutt mun sveitarfélagið ekki geta staðið undir þeim nema með því að bjóða íbúum sínum upp á mun lakari lífsgæði en nágrannasveitarfélögin næstu árin. Á sama hátt er ljóst að sameining við Garðabæ eða jafnvel Hafnarfjörð hugnast íbúunum illa – ef til vill vegna þess að stærðarmunurinn er ekki nógu mikill.

Þrátt fyrir erfiða lausafjárstöðu nú um stundir og talsverðar skuldir bundnar í fyrirtækjum sínum, ætti Reykjavík að vera það sveitarfélag sem helst væri í stakk búið til að taka á sig hið erfiða bú Álftnesinga og halda á sama tíma áfram að tryggja íbúunum viðundandi þjónustu. Til skemmri tíma litið hefði þetta lítið annað í för með sér heldur en viðbótarútgjöld fyrir höfuðborgina – en til lengri tíma gæfi það ýmis tækifæri varðandi skipulagsmál.

Er þetta ekki kostur sem vert væri að athuga af fullri alvöru – og þyrftu stjórnmálaflokkarnir ekki að þora að ræða þennan möguleika upphátt?

Join the Conversation

6 Comments

  1. Er það? Af hverju eiga Reykvíkingar endalaust að vera að greiða fyrir eyðslufyllerí nágrannasveitarfélaganna? Að horfa upp á Seltjarnarnes, Garðabæ og Mosfellsbæ sækja atvinnu og þjónustu í Reykjavík á meðan útsvarið fer allt í þessi litlu sveitarfélög og skekkja þannig hlutföllin á milli þjónustu og útsvars er óþolandi. Af hverju getum við ekki bara látið þetta hafa áhrif á húsnæðisverð á Álftanesi eins og raunveruleikinn öskrar á? Það hljómar ekki illa í mínum eyrum að til sé einbýlishúsahverfi á höfuðborgarsvæðinu á sanngjörnu verði.

    Ég segi allt eða ekkert. Annaðhvort innlimar Reykjavík öll sveitarfélögin eða ekkert. Núverandi ástand er heimskulegt en að taka eingöngu þau illa stöddu er ekki eitthvað sem ég vil sjá gerast.

  2. Það væri mun eðlilegra að sameina sveitarfélög sem liggja hvort að öðru. Hafnarfjörður, Álftanes, Vogar og Garðabær gætu t.d. myndað mjög öflugt samfélag. Allra best væri samt ef Höfuðborgarsvæðið væri eitt sveitarfélag.

  3. Það þarf að sameina öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu í eitt öflugt sveitarfélag. Það var jú „samkeppnin“ milli félaganna um íbúa sem leiddi til þess að farið var að reisa ný og ný hverfi upp á heiði og út á hraun þó enginn markaður væri fyrir þessu. Sameinuð, með öfluga borgarstjórn (40-50 manns) er málið.

  4. Athyglisverð pæling. Sennilega er það rétt að sameining Álftaness við Reykjavík komi frekar til greina en sameining við nálægri en smærri sveitarfélög. Skuldabagginn er hinsvegar það stór að ekki einu sinni Reykjavík mun taka við honum með glöðu geði. Kjalnesingar voru aðeins tæplega 600 þegar sú sameining var samþykkt og í þá gömlu góðu daga höfðu menn allt aðrar hugmyndir um hvað teldust miklar skuldir en nú er. Álftanes er miklu stærri baggi og býður þar að auki ekki upp á sérstaklega mikla framtíðarmöguleika. Nesið er nánast fullbyggt miðað við aðalskipulag sveitarfélagsins en stórir hlutar þess eru á náttúruminjaskrá af ástæðum sem ég sýni lítinn skilning.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *