Málaferlin

Um daginn varð ég fyrir þeirri ógæfu að fésbókarvinur skellt inn á síðuna sína tengli á hið vemmilega lag I feel like Buddy Holly með smjörpungnum Alvin Stardust. Það er hörmulegt lag – en jafnframt lag sem er alltof auðvelt að fá á heilann.

Í örvinglan minni fór ég að lesa mér til um lagið og höfund þess, Mike Batt – sem er einhver hataðasti maður Bretlands fyrir að bera ábyrgð á tónlistarfyrirbærinu The Wombles. Ábyrgð Vamblanna á tónlistaróþoli er ekki minni en mannsins sem samdi Fugladansinn.

Í Wikipediu-færslunni um Mike Batt kemur hins  vegar fram frábært kjúríosítet. Einhverju sinni setti hr. Batt inn á hljómplötu verkið „Mínútuþögn“ – sem var nákvæmlega það: einnar mínútu þögn.

Verkið var augljóslega skírskotun í hið kunna tónverk 4 mínútur og 33 sekúndur eftir John Cage. Ekki fór hins vegar betur en svo að afkomendur John Cage kærðu Mike Batt fyrir tónverkastuld (þá væntanlega fyrir að stela u.þ.b. fimmtungnum af þögninni hans Cage). Málinu lauk með því að Batt endaði á að borga háar skaðabætur.

Gott á´ann!