Stólaleysi

Fréttamoli Dv.is um deilur Þráins Betrhelssonar og Þórs Saari bendir til fádæma skilningsleysis á störfum þingsins. Ekki er ljóst hvort misskilningurinn liggur hjá Þór Saari, blaðamanni DV eða báðum.

Í molanum segir:

„Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, er ekki ánægður með sinn gamla félaga, Þráin Bertelsson, þessa dagana.

Þór vildi að Egill Helgason, Eva Joly og fleiri fengju að sitja fundi allsherjarnefndar sem áheyrnarfulltrúar þegar fjallað er um rannsóknarskýrslu hrunsins. Hann leitaði til Þráins, sem situr einmitt sem áheyrnarfulltrúi, um að víkja fyrir Evu eða einhverjum framangreindra. Svarið var nei.“

Úr þessum fáeinu línum má lesa þann skilning að það sé stólafjöldinn í fundaherbergjum þingnefnda sem ráði því hverjir og þá hversu margir mega sitja fundina. Þannig sé það guðvelkomið að Egill Helgason sitji glaðbeittur á öllum fundum… ef aðeins takist að losa fyrir hann stól.

Auðvitað er þetta hreinasta firra. Þingnefndir eru skipaðar þingmönnum og áheyrnarfulltrúar minni stjórnmálahreyfinganna á þingi eru og verða þingmenn. Þótt Þór Saari kunni að eiga þann draum að fólk utan úr bæ sitji þessa fundi, þá verður hann að eiga það mál við einhvern annan en Þráinn Berthelsson.