Arðrændir unglingar?

Lenti í skoðanaskiptum við Andrés Jónsson á blogginu hans fyrr í dag. Kveikjan að því voru vangaveltur hans um hvernig best væri að standa að opinberum styrkjum til íþróttafélaga. Þetta leiddi hugann að gamalkunnri mýtu varðandi rekstur íþróttahreyfingarinnar: að rekstur meistaraflokka væri að miklu leyti greiddur með æfingagjöldum yngstu iðkendanna, sjálfboðavinnu unglinga og opinberu fé sem upphaflega hefði átt að renna til ungviðisins.

Þessi hugmynd hefur verið langlíf og var síðast viðruð í ótal netskrifum í tengslum við strípiklúbbsmál KSÍ-starfsmannsins í Sviss.

Þegar ég var að vinna heimildavinnuna fyrir 100 ára sögu Fram, rakst ég að sjálfsögðu á skrif í þessa veru og var forvitinn að komast að komast að því hvenær umræðan hefði byrjað sem og hvað hæft væri í henni. Sú rannsókn náði einungis til þessa eina félags, en ég hef í sjálfu sér enga ástæðu til að ætla annað en að þróun mála hafa í aðalatriðum verið eins hjá öllum stærri Reykjavíkurfélögunum og væntanlega víðar.

Fyrirfram bjóst ég við því að bras við fjáraflanir, smásníkjur og rukkun æfingagjalda væru jafngömul fyrirbæri og rekstur yngri flokka í hópíþróttum. Sú var þó ekki raunin.

Ef saga íslenskrar knattspyrnu er skoðuð, kemur í ljós að fótboltaiðkun ungmenna (lesist: drengja) var lengst af furðuútgjaldalítil. Rekstur keppnisflokkanna var líka ódýr. Þjálfarar voru ýmist ólaunaðir eða fengu greitt til málamynda og þá varla fyrir útlögðum kostnaði. Keppnisferðir út á land voru fátíðar og ferðast spart. Félagið lagði til búninga – sem oft og tíðum voru gefnir af vinum og velunnurum klúbbsins.

Ekki var um að ræða eiginleg æfingagjöld – eða þá að um var að ræða mjög lágar upphæðir. Ætlast var til þess að yngri félagarnir greiddu hálft félagsgjald eða þaðan af minna, en innheimtan á því var losaraleg. Upphæðin var sömuleiðis lág og vægi félagsgjalda fór stöðugt minnkandi í reikningunum. Eftir 1960 má segja að félagsgjöld skipti ekki lengur teljandi máli í bókhaldinu – en innheimta þeirra varð frekar að prinsipatriði, einkum í huga sumra eldri félagsmanna.

Litlar heimildir eru um að vænst hafi verið mikillar sjálfboðavinnu af yngri iðkendunum, enda í sjálfu sér ekki mikið um fjáraflanir. Helst að reynt væri að hvetja sem flesta til að selja happdrættismiða ef efnt var til slíks.

Á þessum árum datt engum í hug að halda því fram að yngri flokkarnir væru arðrændir af meistaraflokknum, enda var fjárstreymið í hina áttina. Miðasala á leiki meistaraflokks var það sem rak knattspyrnudeildina að mestu leyti.

Framarar voru (eins og aðrir íþróttamenn) aldrei ríkir, en þeir voru ekkert sérstaklega blankir heldur. Upp úr 1970 fer reksturinn hins vegar að þyngjast verulega. Fyrst í handboltanum sem var útgjaldameiri íþrótt en með færri borgandi áhorfendur. Undir lok níunda áratugarins fer að verða vart við sömu þróunina í fótboltanum.

Margir samverkandi þættir ollu þessu.

Sífellt erfiðara var að fá þjálfara til að starfa í sjálfboðavinnu, á sama tíma og kröfurnar til gæða þjálfunarinanr fóru vaxandi. Það þótti ekki lengur verjandi að halda úti sextíu stráka æfingu með einum leiðbeinanda með flautu sem skipti í lið og lét „ruslið“ æfa á bílaplaninu. Þjálfunarkostnaður allra flokka fór vaxandi.

Í meistaraflokkunum varð sífellt algengara að einstök félög réðu þjálfara með engin persónuleg tengsl við viðkomandi lið, sem þar af leiðandi gerðu fullar launakröfur. Fyrsti slíki þjálfarinn hjá Fram var Keflvíkingurinn Hólmbert Friðjónsson undir lok áttunda áratugarins. Laun slíkra þjálfara þóttu há – en teldust varla merkileg í seinni tíð. Um svipað leyti fór aðeins að bera á því að bestu leikmenn fengju smásporslur fyrir að æfa með liðum sínum.

Með sívaxandi útgjöldum varð ljóst að íþróttadeildirnar yrðu ekki reknar með miðasölu á meistaraflokksleikjum einvörðungu. Viðbrögðin voru tvíþætt. Annars vegar var reynt að auka tekjurnar með óhefðbundnum fjáröflunum (Framarar sáu t.d. um mestalla dreifingu fyrir bókaklúbbinn Veröld, sem margir muna eftir). Hins vegar var farið að miða æfingagjöldin hjá yngri iðkendunum við raunverulegan rekstrarkostnað þeirra. Gjöldin hækkuðu jafnt og þétt – auk þess sem möguleikar flokkanna á að fá styrki frá móðurdeildunum til keppnisferða minnkuðu og við tók tími rækju- og klósettpappírssölu.

Þegar þetta tvennt féll saman: að sögur bárust af einstaka leikmönnum í efstu deild karla sem fengu borgað fyrir að spila, æfingaferðum meistaraflokka til útlanda og launuðum þjálfurum – á sama tíma og farið var að senda síhærri gíróseðla fyrir æfingagjöldum barnanna, er ekki skrítið þótt margir hafi orðið reiðir.

Það þarf þó ekki að liggja lengi yfir reikningum knattspyrnudeildar Fram (né væntanlega annarra félaga ef því er að skipta) til að sjá að yngri flokkarnir voru svo sannarlega engin gullnáma. Rekstur þeirra með æfingagjöldum og opinberum stuðningi hefur yfirleitt staðið undir sér með herkjum.

Síðustu tíu árin eða svo hefur svo fjárhagur yngri og eldri flokka verið aðskilinn og reksturinn raunar verið á sitthvorri kennitölunni. Ekki er að sjá að sá aðskilnaður hafi haft nokkur áhrif á æfingagjöld eða kostnað við íþróttaiðkun barna og unglinga. Ef eitthvað er má segja að rekstur yngri flokkanna hafi orðið erfiðari og þeirra sneið af kökunni minnkað í kjölfarið.

Umræðan um opinberu framlögin er flóknari. Þar fær maður þó á tilfinninguna að margir telji að íþróttafélögin fái sendar risastórar ávísanir frá ríki og borg til frjálsra afnota – sem hið opinbera ætlist til að fari í kaup á búningum fyrir sjötta flokk stúlkna, en óprúttnir íþróttaforkólfar kjósi að nota í launagreiðslur til þeldökkra körfuboltakarla.

Veruleikinn er sá að opinberu framlögin eru að langmestu leyti tengd mannvirkjum (sem meistaraflokkarnir njóta vissulega góðs af). Að öðru leyti eru framlögin rækilega eyrnamerkt og hanga saman við iðkendur, æfingatíma o.fl.