Að éta handritin

Gunnar Smári skrifar lipran pistil í Fréttablaðið í dag. Þar kemur fyrir hnyttin klausa á þá leið að við séum ekki bara komin af þeim sem skrifuðu handritin – heldur líka þeim sem átu þau.

Þetta er auðvitað skemmtileg líking og ágætur djókur. En eins og svo margir aðrir góðir djókar, einn af þeim sem sagnfræðingar hafa eyðilagt.

Íslendingar misstu nefnilega aldrei álit á sagnaarfinum. Reyndar var smekkur manna misjafn eftir tímabilum hvað af gömlu skrifunum væru merkileg og hvað ekki – en eftir stendur að þau voru alltaf meðhöndluð af virðingu.

En hvernig stóð þá á því að landsmenn fóru að taka gömlu skinnhandsritin og breyta þeim í skinnbætur eða naga við hungri? Jú, oftrú á nútímavæðingu.

Þegar fram liðu stundir eignuðust Íslendingar pappír og notuðu meðal annars til að skrifa upp gömlu skinnbókarhandritin. Pappírinn var nútímalegur og meðfærilegur. Skinnið þungt, illlæsilegt og ómeðfærilegt. Þess vegna freistuðust margir til að hugsa sem svo að þegar búið væri að skrifa upp skinnhandritin á pappír, hefðu gömlu handritstægjurnar ekkert gildi lengur – og mætti sem best nýta í bætur eða til átu.

Sagan um handritaát Íslendinga er því ekki til marks um virðingarleysi fyrir þjóðararfi eða lágt menningarstig. Hún er frekar dæmisaga um hvernig menn geta átt það til að ofmeta gildi tækninýjunga og verið of fljótir til að henda því gamla í þeirri trú að það sé orðið úrelt.

Join the Conversation

6 Comments

  1. Mér sýndist nú vera sitthvað fleira þarna af hnyttnum punktum fyrir sagnfræðinga til að eyðileggja – ekki af því þeir væru beinlínis rangir, heldur af því að útleggingarnar væru í meira lagi hæpnar.

    Samt góður pistill hjá GSE, eins og oft áður.

  2. En er yfirleitt eitthvað til í því að handritin hafi verið „étin“? Mér hefur ævinlega þótt ferlegur þjóðsagnakeimur af því. Látum vera að nota þau í eina og eina skóbót.

  3. Ég stóð í þeirri trú að skýringin á handritaátinu hafi verið neyð og hungur. Nú væri gaman að fá að heyra hvaða hugmyndafræði réð því að rugbyleikmennirnir í Andesfjöllum átu liðsfélaga sína.

  4. Bókmenntafræðin er eitthvað að þvælast fyrir Smáranum líka miðað við þessa klausu: „Það er flestum – öðrum en íslenskum samtímarithöfundum – kunnugt að söguþráður heldur uppi sögu.“

    Hvað sem mönnum kann að þykja um bókmenntir með eða án söguþráðs þá fer vart á milli mála að íslenskir rithöfundar hafa verið miklu trúrri sögunni en kollegar þeirra á meginlandi Evrópu, sem eru miklu duglegri að skrifa skáldsögur án söguþráðs eða þá skáldsögur þar sem söguþráðurinn er fullkomið aukaatriði.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *