Að éta handritin

Gunnar Smári skrifar lipran pistil í Fréttablaðið í dag. Þar kemur fyrir hnyttin klausa á þá leið að við séum ekki bara komin af þeim sem skrifuðu handritin – heldur líka þeim sem átu þau.

Þetta er auðvitað skemmtileg líking og ágætur djókur. En eins og svo margir aðrir góðir djókar, einn af þeim sem sagnfræðingar hafa eyðilagt.

Íslendingar misstu nefnilega aldrei álit á sagnaarfinum. Reyndar var smekkur manna misjafn eftir tímabilum hvað af gömlu skrifunum væru merkileg og hvað ekki – en eftir stendur að þau voru alltaf meðhöndluð af virðingu.

En hvernig stóð þá á því að landsmenn fóru að taka gömlu skinnhandsritin og breyta þeim í skinnbætur eða naga við hungri? Jú, oftrú á nútímavæðingu.

Þegar fram liðu stundir eignuðust Íslendingar pappír og notuðu meðal annars til að skrifa upp gömlu skinnbókarhandritin. Pappírinn var nútímalegur og meðfærilegur. Skinnið þungt, illlæsilegt og ómeðfærilegt. Þess vegna freistuðust margir til að hugsa sem svo að þegar búið væri að skrifa upp skinnhandritin á pappír, hefðu gömlu handritstægjurnar ekkert gildi lengur – og mætti sem best nýta í bætur eða til átu.

Sagan um handritaát Íslendinga er því ekki til marks um virðingarleysi fyrir þjóðararfi eða lágt menningarstig. Hún er frekar dæmisaga um hvernig menn geta átt það til að ofmeta gildi tækninýjunga og verið of fljótir til að henda því gamla í þeirri trú að það sé orðið úrelt.