Alþingisvefurinn bregst

Sigríður Á. Andersen er í forsvari fyrir hóp sem safnar peningum fyrir minnisvarða með nöfnum þingmanna sem kusu með ríkisábyrgð á Icesave. Þetta er vaskur hópur – enda þegar búinn að safna um það bil helmingi þeirrar upphæðar sem Sjálfstæðismenn skröpuðu saman í allsherjarútkalli sínu fyrir jólin og færðu Mæðrastyrksnefnd.

Ljóst er að Sigríði er málið afar hugleikið, en hún var einmitt í þeirri góðu aðstöðu að sitja á Alþingi haustið 2008, nánar tiltekið frá 13. til 27. október. Á þeim tíma var Icesave-málið komið í umræðuna fyrir alvöru. Orðið Icesave finnst einmitt fyrst í orðaleit Alþingisvefsins sama dag og Sigríður Á. Andersen settist á þing. Og áður en hún lét af störfum fyrir þjóðina fór fram mikil umræða um stöðu bankakerfisins eftir munnlega skýrslu forsætisráðherra, þar sem Icesave var í veigamiklu hlutverki.

Ég var spenntur að sjá hvað Sigríður Á. Andersen hefði lagt til málanna í þessu mikilvæga máli – en varð fyrir nokkrum vonbrigðum. Alþingisvefurinn virðist nefnilega bilaður.

Eða hvernig má það annars vera að samkvæmt vef Alþingis hafi Sigríður ekkert blandað sér í umræðurnar um málið? Og það sem verra er – ef marka má Alþingisvefinn virðist hún ekki hafa verið flutningsmaður að einu einasta máli eða skjali allan þennan tíma. Samkvæmt þessu tók Sigríður ekki til máls nema einu sinni á þessu hálfsmánaðar tímabili og talaði þá í 37 sekúndur um mögulega endurgreiðslu vörugjalda við endurútflutning á nýjum og nýlegum bifreiðum. Ræðan var 141 orð.

Hér hlýtur að vera um að kenna mistökum í tölvukerfi. Í það minnsta er erfitt að trúa því að þessi unga og ákafa kona, sem gengur nú svo vasklega fram í svika- og landráðabrigslum, hafi átt sæti á Alþingi í tvær vikur í miðju efnahagshruninu án þess að leggja annað og meira til málanna… eða er það ekki örugglega?