Merkingarlausasti frasinn

Ég er farinn að fá grænar bólur í hvert sinn sem ég heyri fólk tala um að Íslendingar séu sammála um að „standa við skuldbindingar sínar“. Þetta er merkingarlausasti frasi sem til er – einkum þegar hann er þulinn með ábúðarfullri röddu og talað um mikilvægi þess að koma þessu á framfæri við útlendinga til að leiðrétta einhvern misskilning.

Auðvitað segir þetta ekki neitt.

Vef-Þjóðviljinn og Gordon Brown gætu skrifað upp á þennan frasa. Báðir segjast væntanlega vera sammála um að Íslendingar eigi að standa við skuldbindingar sínar. Munurinn er sá að annar aðilinn telur að þær skuldbindingar feli í sér greiðslu á skrilljónum – hinn vill borga túskilding með gati.

Deilan um Icesave snýst um það hvernig menn skilgreina skuldbindingar Íslendinga – hvort þær séu miklar, litlar eða jafnvel engar. Á meðan menn eru ósammála um hvað þessar skuldbindingar eigi að fela í sér eru staðhæfingar um að landsmenn séu sammála um að standa við skuldbindingarnar ekkert annað en merkingarlaus froða. Er það ekki nokkuð augljóst?