Einn, tveir, þrír, fjór – Afríka er ansi stór (b)

Eftir hina hörmulegu hryðjuverkaárás á landslið Tógó, er boltinn farinn að rúlla á Afríkumótinu og ekki verður annað sagt en að þetta byrji vel. Opnunarleikurinn var ótrúlegur! Angóla missti 4:0 forystu niður í jafntefli á síðustu tólf mínútunum. Í gær horfði ég svo á tvo leiki sem báðir voru forvitnilegir.

Malawi skellti Alsír 3:0, í leik þar sem búist hafði verið við Alsíringum í hlutverki kattarins en ekki músarinnar. Í seinni viðureigninni náði lið Burkina Faso markalausu jafntefli gegn stjörnum prýddu liði Fílabeinsstrandarinnar. Allir leikmenn Burkina Faso virtust sterkir eins og naut og voru ekkert að hika við tveggja fóta tæklingarnar út um allan völl. Ekki veit ég hvernig evrópskur dómari hefði brugðist við þessu.

Það er annars margt skrítið við þennan afríska bolta. Á mótinu má finna suma af bestu fótboltamönnum í heimi, en annað er ótrúlega viðvaðningslegt. Þannig má nánast taka því sem gefnu í leikjum að annar markvörðurinn eða báðir séu í tómu rugli þegar kemur að úthlaupum, t.d. í hornspyrnum. Held að íslensku markverðirnir væru nánast betri við þessar aðstæður og er þá mikið sagt.

Egyptaland og Nígería mætast síðdegis í einum af stórleikjum riðlakeppninnar. Seinni leikurinn hljómar reyndar ekki síður vel – Mósambík : Benín. En því miður missi ég af honum.