Rangt

Ég var aldrei sérstakur aðdáandi stjórnmálamannsins Halldórs Ásgrímssonar. Raunar má segja að ég hafi verið meira og minna ósammála flestöllu því sem hann stóð fyrir í pólitík.

Aldrei fyrirleit ég Halldór Ásgrímsson þó jafn innilega og af öllu hjarta og daginn þegar hann mætti í sjónvarpið og sagði ríkisstjórnina vilja fá stoðtækjafyrirtækið Össur til að smíða nýjar fætur á Alí litla, sem missti alla fjölskylduna, fæturnar, hendurnar og var þakinn brunasárum um restina af líkamanum eftir að eitt af loftskeytunum okkar splundraði húsinu hans.

Vonandi á ég eigi aldrei eftir að fyrirlíta nokkurn íslenskan stjórnmálamann (eða nokkra aðra manneskju ef út í það er farið) jafn mikið og Halldór Ásgrímsson þennan dag.

Ég upplifi samt vott af sömu tilfinningu (á miklu minni skala þó) þegar ég les pistla eins og þennan. Hvað gengur á í kollinum á fólki sem horfir upp á einhverjar mestu náttúruhamfarir sögunnar, með óheyrilegu mannfalli, þar sem Íslendingar reyna af veikum mætti eins og aðrar þjóðir að lina þjáningar fólksins – og fer þá strax að hugsa um hvað þetta sé nú gott ímyndarmál og flott PR í einhverri helvítis peningadeilu við Breta.

Ljótt, ljótt sagði fuglinn.

Join the Conversation

4 Comments

 1. Ég verð að vera þér ósammála núna. Mér finnst pistillinn á engan veginn ósmekklegur. Ég fylgdist með fréttum í gærkvöldi, bæði í sjónvarpi og á vef CNN og BBC og ég var stoltur Íslendingur í fyrsta sinni í langan tíma. Hörmungarnar á Haiti setja „okkar“ erfiðleika í nýtt samhengi. Við eigum að borða og enginn þarf að sofa undir berum himni osfrv.
  Íslenska sveitin virkaði á mann „alvöru“. Ég var sérstaklega ánægður með Össur, hve skjótt var brugðist við og ég sá hvergi verið að auglýsa þetta framtak okkar upp. Það var yfir framkvæmdinni eitthvert látleysi, fumleysi og fagmennska.
  Það er allt í lagi að vera stoltur Íslendingur í nokkra daga.
  Er ekki í lagi að umheimurinn fái líka að sjá þessa hlið á okkur? Að við hugsum ekki bara um að ræna og rupla bótalaust nágranna vora.

 2. Villi, þú ert að misskilja. Aðgerðin er flott og allt það og menn meiga alveg vera stolltir af þessari sveit sem að send var til Haiti.

  En að Pressan skuli nýta sér þetta í svona skítapistil eins og Stefán vísar í er ekki fallegt.

 3. Takk fyrir ábendinguna Stefán. Hugsunarlaust las ég þessa grein í dag og fattaði engann veginn hvað þessi Icesave tenging var glórulaus. ekki bara glórulaus heldur er stór vottur af siðblindu þarna innifalinn!!!!

  Kærar þakkir

 4. Skil reyndar að íslenska þjóðin þurfi eitthvað til að ýta undir sjálfsálitið (sbr. Villi) eeeen þetta er rangt á öllum sviðum, skilur eftir óbragð í munninum.

  Við erum svo sjálfhverf þjóð að það hálfa væri nóg. Ef þetta væri ekki þjóðin mín þá er ekki viss um að mér myndi líka neitt sérstaklega vel við hana 😮

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *