Saga tveggja borga

Ég spjallaði stuttlega við gamla skólasystur frá Edinborg. Hún er hollensk, býr í Amsterdam og vinnur í einhverju óskiljanlegu upplýsingatæknidóti. Eftir að hafa skipst á fréttum af sjálfum okkur og öðrum skólafélögum (sem voru litlar) barst talið að eftirlætismilliríkjadeilu okkar allra…

Hún vildi reyndar ekki kannast við að Icesave-málið væri ofarlega á baugi í Hollandi og sagðist raunar bara hafa farið að fylgjast með málinu vegna þess að hún kannaðist við Íslending – mig.

Það kúnstuga við Icesave-málið, sagði hún, er að það sameinar þá sem eru lengst til hægri og lengst til vinstri í hollenskum stjórnmálum. Báðir hóparnir eru gallharðir á því að Ísland verði að borga. Vinstrimennirnir telja það mjög mikilvægt í viðnáminu gegn hinum hnattvædda kapítalisma að hollensk stjórnvöld standi í lappirnar og krefjist bóta. Ekki bara innistæðutryggingarinnar heldur allrar upphæðarinnar.

Hollenskir hægrimenn eru á sama máli, nema að rök þeirra eru önnur. Þeir eru alveg á móti því að sparifjáreigendur og skattborgarar í Hollandi taki á sig tapið af misheppnuðu fjármálaævintýri útlendinga. Það sé lykilatriði í kapítalismanum að menn þurfi að standa við skuldir sínar og geti ekki sent öðrum reikninginn. Hægrimennirnir eru öskureiðir út í hollensk stjórnvöld fyrir að standa ekki í lappirnar gagnvart útlendingum og verja hollenska hagsmuni. Sumir vilja skýra þessa linkind í garð Íslendinga með ESB – að enn eina ferðina eigi skattgreiðendur í „alvöru“ ESB-löndunum að taka upp veskið til að nýtt basket-case ríkið geti fengið inngöngu í sambandið.

Þetta þótti mér kúnstug lýsing og útskýrði fyrir kunningjakonu minni að á Íslandi væri þessu eiginlega öfugt farið. Auðvitað væri enginn hress með Icesave, en hatrömmustu andstæðingarnir væru þeir sem skilgreindu sig lengst til hægri og lengst til vinstri.

Við urðum sammála um hér þyrfti augljóslega að byggja brýr á milli.

i) Íslenskir hægrimenn (má ég stinga upp á sendinefnd undir forystu Vef-Þjóðviljans og Sigríðar Andersen) gætu hitt kollega sína í Thatcher-æskunni í Hollandi og útskýrt fyrir þeim hvers vegna framtíð kapítalismans og andstaðan gegn ESB verði best tryggð með því að Ísland neiti að borga. Viðmælendurnir myndu svo útskýra hið gagnstæða.

ii) Íslenskir vinstrimenn (t.d. félagi Ögmundur) myndu svo hitta hollenska hugsjónabræður og benda þeim á að leiðin til að fella heimskapítalismann felist í því að Ísland borgi sem minnst. Hinir myndu svo færa fyrir því snjöll rök hvers vegna þessu sé akkúrat öfugt farið.

Í lokin yrði svo sameiginleg ráðstefna allra aðila, þar sem komist yrði að niðurstöðu um það hvor ríkisstjórnin – sú hollenska eða íslenska – sé verri með það að svíkja málstað eigin þjóðar en draga taum útlendinga með linku, aumingjaskap og vondri samningatækni.