Fimmflokkurinn

Á bloggsíðu Láru Hönnu Einarsdóttur standa yfir miklar umræður um Hreyfinguna/Borgarahreyfinguna og stöðu fjórflokksins. Kveikjan að þeim eru hugleiðingar um hvort hörmungarsaga Borgarahreyfingarinnar fyrstu mánuðina sé slík að henni hafi varanlega tekist að spilla fyrir möguleikanum á að hnekkja fjórflokkakerfinu á Íslandi – eða í það minnsta slegið öllum slíkum hugmyndum á frest í tuttugu ár. Sitt sýnist hverjum.

Ég hef tvennt þessar vangaveltur að athuga:

i) Í fyrsta lagi þarf stöðugt flokkakerfi ekkert að vera slæmt. Flokkakerfi flestra ríkja á Vesturlöndum eru býsna stöðug og erfitt að sjá að þeim löndum hafi farnast betur (eða verr ef því er að skipta) þar sem flokkar koma og fara ört. Pólitísk nýsköpun á sér þá stað innan ríkjandi flokkakerfis. Þannig dettur okkur varla í hug að halda því fram að bandarísk stjórnmál hafi verið stöðnuð og óbreytanleg í hundrað ár bara vegna þess að sömu tveir flokkarnir berjast um völdin.

ii) Í öðru lagi er ég ekki sammála því að á Íslandi sé við lýði fjórflokkur. Miklu nær er að tala um íslenska fimmflokkinn. Til hans heyra: stór flokkur hægrimanna, miðjuflokkur með sterkar landsbyggðarrætur (jafnt og þétt minnkandi), flokkur sósíaldemókrata, flokkur sósíalista með umhverfis- og feminískar tengingar & Fimmti flokkurinn.

Fimmti flokkurinn er óskilgreindasta aflið í þessari upptalningu. Í orði kveðnu stillir hann sér upp á móti hefðbundnu flokkunum fjórum, en þegar nánar er að gáð skilgreinir hann sig fyrst og fremst út frá þeim. Fimmti flokkurinn gengur sjaldnast undir sama nafni tvennar kosningar í röð (og stundum er meira en einn Fimmti flokkur í boði.

Bandalag jafnaðarmanna, Borgaraflokkurinn, Þjóðvaki, Nýtt afl, Íslandshreyfinginn og Frjálslyndi flokkurinn falla allir undir þessa skilgreiningu – þótt vissulega hafi sá síðastnefndi verið kominn nokkuð á leið með að mynda sér eigin sjálfsmynd þegar furðuleg sjálfseyðingarhvöt tók völdin. Kvennalistinn er hins vegar talsvert annars eðlis og á ekki heima í upptalningunni.

Fjórir þeirra sex flokka og hreyfinga sem hér voru nefnd komu mönnum á þing. Frjálslyndi flokkurinn meira að segja í þrígang. Engu að síður stóð flokkakerfinu engin ógn af þessum öflum. Íslenska flokkakerfið gerir nefnilega ráð fyrir Fimmta flokknum sem nær inn á þing í tveimur af hverjum þremur tilfellum, enda má reikna með því að það sé ætíð viss hluti kjósenda (a.m.k. 5%) sem mun ALLTAF kjósa framboðið sem gefur gefur sig út fyrir að vera nýtt og öðruvísi.

Út frá þessu held ég að það séu óþarfa áhyggjur hjá Láru Hönnu að þrautaganga Borgarahreyfingarinnar/Hreyfingarinnar hafi takmarkað möguleika nýrra flokka á að komast inn á þing til hliðar við þá fjóru hefðbundnu. Svo fremi að slík stjórnmálasamtök ganga inn í hlutverk Fimmta flokksins, er leiðin nokkuð greið. Ætli menn sér hins vegar að gera raunverulega atlögu að skipulagi íslenska flokkakerfisins er það annað og stærra mál.