(Þetta blogg mun verða til þess að Palli Hilmars rífur hár sitt og skegg – en eitthvað verður hann nú að hafa til að láta fara í taugarnar á sér.)
Ég var uppi í Útvarpshúsi á dögunum og rakst þar á Örn Úlfar, Gettu betur-dómara þessa vetrar. Við Örn þekkjumst vel frá því í MR. Hann var fyrsti maðurinn til að gegna embættinu Tímavörður scholae sem við í Málfundafélaginu Framtíðinni stofnuðum af skömmum okkar – hálft í hvoru til að gera grín að tilgerðarlegum latneskum embættistitlum Skólafélagsins. Inspector fannst þetta ekkert fyndinn djókur.
Örn spurði hvort það væri ekki von á færslu um keppnina það sem af er ári? Var greinilega hálfspældur að hafa ekki fengið keppnisrýni ennþá. Undan slíkum áskorunum verður ekki vikist.
Seinni útvarpsumferðinni lýkur á mánudagskvöld og í kjölfarið verður dregið í átta liða úrslitin. Það þarf þó ekki mikla spádómshæfileika til að sjá hvaða lið verða í þeim flokki.
Spurningarnar hafa verið góðar í ár. Þær eru skemmtilegar – ekkert alltof þungar, en stigatölurnar sýna að þetta er á mjög svipuðu róli og verið hefur. Örn er spurninganörd og veit því upp á hár hvað virkar og hvað virkar ekki í svona keppni. Mistök hafa verið í lágmarki og skynsamlega tekið á óvæntum uppákomum. Um meira er ekki hægt að biðja.
Tvö lið sýnist mér skera sig úr hvað varðar styrkleika: MR og Versló. Ég yrði ákaflega undrandi ef öðrum skóla en þessum tveimur tækist að vinna, þótt auðvitað geti allt gerst. Mér sýnist Verslingarnir vera sterkari og tel þá sigurstranglegasta.
Tvö lið sýnist mér vera næstbest: MH og Kvennó. Hamrahlíð er að mig minnir með sama lið og komst í úrslitin í fyrra og var ekki svo ýkja langt frá því að vinna. Árangur MH þá sannar að auðvitað væri fráleitt að afskrifa lið þeirra. Að venju vantar MH þó nokkuð upp á skipulagið og mig grunar að Davíð Þór hafi hentað þeim betur sem spurningahöfundur en Örn Úlfar núna.
Kvennó er þó liðið sem vakið hefur mesta athygli mína. Ég held að ég fari örugglega rétt með að Kvennaskólinn hafi aldrei komist upp úr fjórðungsúrslitum í Gettu betur. Núna teflir skólinn hins vegar fram mjög sterku og efnilegu liði. Þetta eru kornungir strákar, sem munu væntanlega bæta sig mikið á næstu árum. Ef þeim tekst að búa til réttu umgjörðina í kringum þetta lið og fá góða leiðbeinendur spái ég því að Kvennaskólinn geti gert raunverulega atlögu að sigri í Gettu betur árið 2012. Það hefðu svo sannarlega þótt tíðindi fyrir fáeinum árum.