Spurningakeppni OR, fyrri undanúrslit

Spurningakeppni sviða Orkuveitunnar er nú haldin í þriðja sinn. Sem fyrr er ég dómari og spurningahöfundur, en Helgi Pé er spyrill. Undanúrslitaviðureignirnar tvær eru að baki og úrslitakeppnin verður eftir viku. Þar keppa sjö svið. Liðin eru skipuð þremur einstaklingum og fyrirkomulagið er hefðbundið pöbb-kviss.

Hér eru spurningarnar úr fyrstu keppni. Sigurliðið (Nýjar virkjanir) fékk 22 stig. Endilega spreytið ykkur – svörin eru neðst í færslunni:

1. Í kvikmyndinni „Íslenska draumnum“ kemst aðalsöguhetjan Tóti í álnir þegar hann hefur innflutning á ódýrum og kolólöglegum sígarettum frá Búlgaríu. Nafnið á sígarettunum var það sama og á kunnu íslensku vörumerki. Hvað hétu þessar skringilegu austur-evrópsku rettur?

 

2. Texas er eitt stærsta fylki Bandaríkjanna. Sagan af innlimun þess í móðurríkið er blóði drifin og náði hámarki í miklu umsátri við trúboðsstöðina Alamo við San Antonio 6. mars 1836. Þar áttust við mexíkanskur umsátursher og upp­reisnar­menn sem vildu brjótast undan yfirráðum Mexíkó yfir Texas. Spurt er hvaða fræga bandaríska þjóðhetja féll í þessum bardaga?

 

3. Bretar hafa, sem kunnugt er, mikla hefð fyrir rekstri pöbba og öldurhúsa. Samtökin CAMRA, Campaign for Real Ale, er kunnasti félagsskapur bjór­áhugamanna þar í landi. Samtökin halda meðal annars utan um lista yfir nöfn á börum á Bretlandseyjum.

 

Ef listinn yfir tíu vinsælustu pöbbanöfnin er skoðaður, kemur í ljós að smekkur Íslendinga og Breta er talsvert mismunandi í nafngiftum. Þannig er „Kórónan“ vinsælasta pöbbanafnið í Bretlandi – en enginn slíkur staður er til á Íslandi. Hér eru heldur ekki neinir: Hvítir hestar, Svanir eða Konunglegar eikur.

 

Næstvinsælasta pöbbanafnið í Bretlandi (með tæplega 700 bari) á sér hins vegar samsvörun á Íslandi. Þar er um að ræða bar sem opnaði á höfuðborgarsvæðinu á bjórdaginn, 1.mars 1989 og hefur starfað svo að segja óslitið síðan undir þessu sama nafni, með smáhléum þó. Hvaða knæpa er þetta?

 

4. Lekadallur djöfuls sleði

dæmdra manna far

svona út á Fetlaflóa

flaut hann Bólivar.

 

Svo segir meðal annars í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar á ljóði Rudyards Kiplings, „The Ballad of the Bolivar“, sem margir kannast við í flutningi Bubba Morthens. Fetlaflói eða Fetlafjörður er gamalt íslenskt heiti á hafsvæði sem gengur út af Frakklandi til vesturs og Spáni til norðurs. Þar hefur verið mikil útgerð frá örófi alda. En hvað heitir þetta hafsvæði í daglegu tali?

 

 

5. Höldum okkur við Rudyard Kipling. Árið 1888 sendi hann frá sér smásögu um tvo ævintýramenn sem halda til afskekkts héraðs þar sem nú eru landamæri Afganistan og Pakistan. Áætlun þeirra var telja þeim innfæddu trú um að þeir væru guðir og lifa þannig í vellystingum. Allt endaði þetta á hinn versta veg. Sagan hefur verið kvikmynduð með Michael Caine og Sean Connery í aðalhlutverkum. Hvað heitir þessi kvikmynd (sem raunar ber sama nafn og smásagan)?

 

6. Lína langsokkur er ein af veigamestu bókmenntapersónum feminískrar bókmenntasögu. Astrid Lindgren skrifaði tólf bækur um ævintýri Línu. Þær fjórar fyrstu komu út á árunum 1945-48, sex til viðbótar 1969-75 og tvær þær síðustu árin 1979 og 2000.

 

Rétt er að taka það fram að dómari og spurningahöfundur hefur ekki lesið allar þessar bækur. Raunar er vitneskja hans um Línu langsokk að mestu leyti fengin úr samnefndu dægurlagi, sem hefur viðlagið: Hér sérðu Línu langsokk Tralla hop tralla hei tralla hopsasa. Hér sérðu Línu langsokk. Já, líttu það er ég.

Í laginu kemur fram að Lína á þrjú gæludýr. Hvaða kvikindi eru það? (Spurt er um dýrategundir, ekki sérnöfn)

 

7. Þráinn Berthelsson er óháður þingmaður, eins og flestir ættu að vita. Hann er líka heiðursverðlaunaður kvikmyndagerðarmaður og hefur gert sjö kvikmyndir í fullri lengd. Nefnið fimm þeirra.

 

8. Spurt er um leik eða spil. Spilið eða leikurinn er einfölduð útgáfa af Pachisi, sem Indverjar hafa skemmt sér við frá því á 6. öld í það minnsta. Vinsældir þess eru slíkar að það hefur stundum verið kallað þjóðaríþrótt Indverja. (Það þarf þó ekki að sanna neitt – til eru þeir sem kalla glímuna þjóðaríþrótt Íslendinga.)

Einfaldaða útgáfan sem hér er spurt um, barst til Englands á tímum heimsveldisins á seinni hluta nítjándu aldar. Keppendur eða keppnislið geta verið á bilinu tveir til fjórir. Talsvert svigrúm er til að breyta keppnisreglunum og er algengt að fólk notist við sérreglur, yfirleitt í því skyni að stytta tímann sem tekið getur að knýja fram úrslit.

Nafn leiksins eða spilsins er fengið úr latínu og merkir einfaldlega: “Ég leik”. Hvert er það?

 

9. Leikarinn Billy Crystal er flestum kunnur, enda hefur hann leikið í fjölda vinsælla kvikmynda auk þess að vera eftirsóttur kynnir á hvers kyns hátíðum og verðlaunaafhendingum. Billy Crystal vakti fyrst athygli undir lok 8. áratugarins fyrir leik í sjónvarpsþáttaseríu. Það var ekki hvað síst sú staðreynd að persóna hans í þáttunum, Jodie Dallas, var yfirlýstur hommi sem vakti athygli. Þetta er oft talið fyrsta dæmið um samkynhneigða söguhetju í “meinstrím” bandarískum sjónvarpsþáttum – og leiddi til ítrekaðra tilrauna ýmissa þrýstihópa til að fá þáttinn bannaðan.

 

Þættirnir, sem framleiddir voru á árunum 1977-81 gerast í Connecticut í ímynduðum bæ í hverfinu “Rich” – sem er mjög viðeigandi, þar sem fjölskyldan sem þættirnir hverfast um er er vellrík. Þættir þessir voru sýndir í Ríkis­sjón­varpinu við talsverðar vinsældir – hvað heita þeir?

 

10. Við hugum þá að efnafræði. Á Íslandi eru fimm myntir í gildi: króna, fimmkall, tíkall, fimmtíukall og hundraðkall. Efnafræðileg samsetning þeirra er miksmunandi. Hundraðkallinn og fimmtíukallinn eru að langmestu leyti úr kopar og sinki. Minni myntirnar voru lengi vel að mestu úr kopar en síðar var því skipt út fyrir stál.

 

Í öllum þessum myntum er hins vegar að finna málm sem mannkynið hefur notað í þúsundir ára – en var ekki greindur sem sérstakt frumefni fyrr en árið 1751. Vegna þessa efnis, eru sumir með ofnæmi fyrir smámynt og geta fengið útbrot við að meðhöndla hana. Hvaða málmur er þetta?

 

11. Árið 1986 var kynnt til sögunnar nýjung í íslenskum bankaviðskiptum, bankakort. Hlutverk þeirra var tvíþætt. Annars vegar voru áætlanir um að setja upp svokallaða hraðbanka, sem starfa myndu allan sólarhringinn. En hins vegar voru bankakortin hugsuð til að koma í veg fyrir ávísanasvindl, þannig að sá sem skrifaði ávísun þurfti um leið að framvísa bankakorti með nafni hans og undirskrift. Hvaða banki – sem þótti sérstaklega „með á nótunum“ – reið á vaðið með þessa nyjung?

 

 

12. Hætt er við að nafnið Mark Elliot Zuckerberg klingi ekki mörgum bjöllum hjá Íslendingum. Um er að ræða Bandaríkjamann frá New York, fæddan árið 1984. Síðar á þessu ári verður frumsýnd í Bandaríkjunum kvikmynd um Zuckerberg þennan og félaga hans, með Jesse Eisenberg og tónlistarmanninum Justin Timberlake í aðalhlutverkum.

 

En þótt fáir kveiki líklega á þessu nafni: Mark Zuckerberg, hefur hann þó sent stórum hluta þeirra sem hér eru inni kveðju. Nánar tiltekið hefur meira en helmingur Íslendinga fengið skeyti frá þessum manni – þótt líklega hafi fæstir nennt að lesa það.

Fyrir hvað er Mark Zuckerberg einkum þekktur?

 

13. Dannebrog, hinn rauði og hvíti fáni Danmerkur, er oft talinn elsti þjóðfáni í heimi. Samkvæmt goðsögninni féll hann af himni ofan í miðri orrustu og sneri töpuðum bardaga upp í frægan sigur.

Önnur Vestur-Evrópuþjóð segist þó eiga eldri fána en Danir. Þann fána prýðir mynd af rauðum dreka. Hvers lenskur er sá fáni?

 

 

 

 

14. Spurt er um dægurlag. Lagið er eitt það vinsælasta í íslenskri tónlistarsögu, sem er nokkuð merkilegt í ljósi þess að það er langt frá því að vera vinsælasta lagið sem hinn upphaflegi flytjandi sendi frá sér. Það var bandaríski kántrí­tónlistarmaðurinn Conway Twitty, sem frægastur varð fyrir smellinn Hello Darlin´ frá árinu 1970.

 

Jón Sigurðsson bankamaður sneri textanum yfir á íslensku og þótti takast svo vel til að hann var verðlaunaður sem textahöfundur ársins á Stjörnumessu íslenskra poppara árið 1978. Í textanum koma fyrir þrjár persónur. Sagt er frá ferðalagi, erfiðum fjarvistum og afdrifaríku sendibréfi. Hvert er dægurlagið?

 

15. Spurt er um listamann. Listamaður þessi var kunnur undir óvenjulegu listamannsnafni sínu. Það var fengið úr máli Jövu-búa í Indónesíu og merkir: „Auga dögunarinnar“. Umræddur listamaður bjó einmitt um tíma á þessum slóðum og kynnti sér menningu og listir heimamanna.

 

Listamannsferillinn hófst fyrir alvöru í París á fyrstu árum 20. aldar, en þá var mjög í tísku að blanda dulúðugum asískum og egypskum menningar­straum­um inn í flestar listgreinar. Um tíma gaf listamaðurinn sig út fyrir að vera af indverskum uppruna – nánar tiltekið af frægum ættum hindúapresta. Í raun var fæðingarstaðurinn þó öllu órómantískari: frísnesk smáborg í Hollandi.

 

Nafn listamannsins væri í dag öllum gleymt, ef ekki hefðu komið til dramatískir atburðir í einkalífinu. Listamaðurinn, sem var kona, dróst inn í aðstæður sem hún fékk ekki ráðið við og missti lífið í kjölfarið. Öll gögn málsins verða þó ekki ljós fyrr en árið 2017, á hundrað ára ártíð hennar. Hver var listamaðurinn?

 

16. Fjörutíu ár skilja á milli elsta og yngsta fulltrúans sem kjörnir voru á Alþingi vorið 2009. Yngsti þingmaðurinn er Ásmundur Einar Daðason, bóndi úr Dalasýslu, sem fæddur er árið 1982. Elsti þingmaðurinn er hins vegar fæddur árið 1942. Hver er það?

 

17.  Spurt er um ávöxt. Hann er upprunnin á Indlandi, þar sem hann hefur verið nýttur í árþúsundir. Í dag má segja að hann sé ræktaður í öllum hitabeltislöndum jarðar. Framleiðslan er gríðarmikil, samkvæmt sumum áætlunum nemur hún um helmingnum af öllum hitabeltisávöxtum sem ræktaðir eru í heiminum.

 

Helmingur heimsuppskerunnar er frá Indlandi, en þrátt fyrir það flytja Indverjar mjög lítið út af þessum ávexti – skýringin er sú að þeir éta nær allt sem þeir framleiða. Það gefur því að skilja að ávöxturinn er mjög fyrirferðarmikill í indverskri matargerðarlist, eins og reyndar má sjá af nafni eins slíks veitingastaðar í Reykjavík.

 

Ávöxtinn má borða ferskan, en hann er einnig mikið unnin og þá blandað saman við önnur matvæli. Um 1980 framleiddi Mjókursamsalan til dæmis sérkennilegan drykk – Sopa – þar sem ávexti þessum var blandað saman við mysu og ananas. Útkoman átti að vera frískandi svaladrykkur en vinsældir neytenda létu á sér standa. Hver er ávöxturinn?

 

18. Vonandi hafa allir hér inni náð þeirri tæknilegu færni að senda SMS, en fyrir þá sem ekki hafa heyrt um fyrirbærið er það snjöll aðferð við skeytasendingar þar sem hefðbundið hnappaborð síma er notað sem ritvél. Og nú spyrjum við – athugið að það er harðlega bannað að seilast eftir gemsanum sínum – hvaða þrír tölustafir eru valdir með því að þrýsta á FIMM á venjulegum farsíma?

 

19. Spurt er um mannvirki. Það er í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum og reist snemma á 5. áratug 20. aldar. Mannvirkið ber sama heiti og gamli borgar­kjarninn í belgísku borginni Brüssel, en það er þó ekki skýringin á nafninu, heldur vísar það útlit þess. Þetta einkennandi útlit er þó hálfgerð tilviljun. Mannvirkið átti upphaflega að rísa á öðrum stað og miðaðist lögunin við útlínur þeirrar byggingarlóðar – síðan var ákveðið að koma henni fyrir annars staðar en hönnunin var látin halda sér.

 

Mannvirkið var reist á sextán mánuðum, sem er gríðarlegt afrek. Þessi framkvæmdahraði er enn merkilegri ef haft er í huga að á þessu ári er loksins áætlað að ljúka viðhalds- og endurnýjunarverkefndi við það sem staðið hefur sleitulaust frá 1990. Við þær endurbætur hafa meðal annars verið lagðir 2.700 kílómetrar af tölvu- og símalínum.

 

Og úr því að við erum farin að kæta áhugamenn um tölfræði má bæta því við að við mannvirkið eru bílastæði fyrir 8.770 bíla og heildarlengd ganga byggingarinnar er 25 kílómetrar – engu að síður staðhæfa stjórnendur hennar að þökk sé snjallri hönnun, taki aldrei lengur en sjö mínútur að ganga frá einum punkti til annars í henni. Hver er byggingin?

 

20. Í hvaða sjónvarpsþáttaröð, sem sýnd hefur verið í íslensku sjónvarpi, gegnir talnarunan: 4, 8, 15, 16, 23 og 42 veigamiklu hlutverki?

 

21. Vorið 1997 tókst tölvurisanum IBM að brjóta blað í sögunni þegar tækni­mönnum fyrirtækisins tókst að búa til tölvu sem náði að framkvæma nokkuð sem margir höfðu spá að engri tölvu gæti tekist. Þótt skringilegt kunni að virðast  ákvað fyrirtækið að taka tölvuna strax í sundur, sem þýddi að ekki var hægt að endurtaka afrekið. Ýtti sú ákvörðun undir samsæriskenningar þess efnis að vélin hefði ef til vill ekki verið eins fullkomin og IBM vildi vera láta.

Tölva þessi fékk heitið Deep Blue eða Djúpblár. Og nú er spurt: hvaða afrek vann hún?

 

22. Söngkonan Jóhanna Guðrún var þekkt barnastjarna um árabil. Í fyrra sló hún svo í gegn með því að ná öðru sætinu í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Jóhanna Guðrún er ein þeirra Íslendinga sem ganga eiginlega aldrei undir öðru en fornafninu. Og því spyrjum við: hvers dóttir er hún?

 

23. Spurt er um bæ á Íslandi. Við byrjum ferðina einna syðst í bænum, á sjóminjasafninu sem stendur við Suðurtanga. Þaðan höldum við í norður eftir Suðurgötu og Pollgötu, meðfram höfninni. Eftir skamma stund beygjum við til austurs og svo til norðurs og erum þá komin að Fjarðarstræti, en við þá götu má bæði finna kaþólsku kirkjuna og Hvítasunnukirkjuna Salem. Af götuheitum sem við rekumst þarna á eru: Pólgata, Mjallargata, Mánagata og Sólgata – en íbúar þessa staðar kunna flestum landsmönnum betur að meta sólina.

 

Í þessum bæ er fjölskrúðugt menningarlíf. Þar má til að mynda finna myndarlegt Harmonikkusafn, líklega það eina sinnar tegundar á Íslandi. Hver er bærinn?

 

24. Hlynur Áskellsson nefnist maður sem er afar fjölhæfur. Hann er kennari að aðalstarfi, en stundar einnig líkamsrækt af kappi og hefur komið að þjálfun ýmissa íþróttamanna. Auk þess er Hlynur söngvari og tónlistarmaður og var fyrir fáeinum misserum nærri því að keppa í Júrovisíon fyrir Íslands hönd. Hann hefur listamannsnafn sem sótt er í skáklistina. Hvert er það heiti?

 

25. Vampýrur eru viðsjárverðar skepnur sem ekki er gott að lenda í. Sem betur fer eru þó ýmsar aðferðir til að verjast þeim, t.d. er vampýrum meinilla við helga gripi, svo sem vígt vatn og krossa. Auk þessa eru það einkum þrír hlutir sem vampýrur forðast eins og heitan eldinn: sólarljós, speglar – og hvert er það þriðja?

 

* * *

 

1. Opal

2. Davy Crocket (hér kemur til greina að gefa rétt fyrir nokkra aðra kappa)

3. Rauða ljónið, á Seltjarnarnesi

4. Biskajaflói

5. The Man who Would be King

6. Api (Herra Níels), hestur og rotta.

– ”Þú höll ei hefur slíka, ég á hest og rottu líka”

7. Jón Oddur & Jón Bjarni; Nýtt líf; Dalalíf; Skammdegi; Löggulíf; Magnús og Einkalíf (Alexanders)

8. Lúdó

9. Löður, e. Soap

10. Nikkel

11. Iðnaðarbankinn

12. Stofnandi Facebook

13. Frá Wales

14. Sagan af Nínu og Geira

15. Mata Hari

16. Jóhanna Sigurðardóttir

17. Mangó

18. JKL

19. Pentagon

20. Lífsháski, e. LOST

21. Tölvan sigraði heimsmeistarann í skák (Kasparov)

22. Jónsdóttir

23. Ísafjörður

24. Ceres 4

25. Hvítlaukur