Fótbolti og útrásarvíkingar

Eins og velflestir fastir lesendur þessarar síðu ættu að vita, hef ég þann djöful að draga að halda með smáliði í enska boltanum. Luton Town var eitt skemmtilegasta liðið í efstu deild þegar ég var smápjakkur og byrjaði að halda með því. Í dag eru Luton-menn fallnir út úr deildarkeppninni, eftir að hafa fallið þrjú ár í röð.

Ástæðan var öðru fremur rugl í rekstri félagsins utan vallar. Félagið var lengi vel í eigu manna sem tóku stórfé út úr rekstrinum í eigin vasa og hugsuðu fyrst og fremst um hvernig þeir gætu auðgast á fasteignabraski í tengslum við mögulega byggingu nýs heimavallar.

Fyrir vikið vitum við Luton stuðningsmenn furðumikið um bresk gjaldþrotalög, greiðslustöðvanir og agaviðurlög knattspyrnuforystunnar við brotum á reglum um fjármál félaga. Ég held að meirihlutinn af því sem ég les um fótbolta í hverri viku (og það er mikið) snúist um slík málefni – og þá sérstaklega félög sem ramba á barmi gjaldþrots.

Eitt áhugaverðasta mál vetrarins hefur tengst Notts County, en það félag hefur sérstaka stöðu í hugum fótboltaáhugamanna sem elsta atvinnumannalið í heimi. Fyrir utan þá merkilegu staðreynd, hefur Notts County ekki ýkja margt að státa af. Það er litla liðið í Nottingham, sem aftur er ekkert sérstaklega rík eða fjölmenn borg.

Notts County hefur fengið sinn skerf af flautaþyrlum. Árið 2003 rambaði Notts County á barmi gjaldþrots, sem verður að miklu leyti að skrifast á ábyrgðarlausan eiganda. Stuðningsmennirnir réru lífróður og náðu að bjarga klúbbnum á síðustu stundu. Þá hafði félagið reyndar fengið að brjóta allar reglur ensku deildarinnar varðandi lengd greiðslustöðvunartímabils. Enska deildin treysti sér bara ekki til að drepa elsta aðildarfélagið.

Í bók enska fótbolta/fjármálablaðamannsins Davids Conn, The Beautiful Game, er sérstakur kafli um Notts County. Þar rekur hann vel hvernig tókst að bjarga liðinu og ber saman jarðbundnar rekstraráætlanir stuðningsmannanna sem eignast höfðu félagið og loftkastalasmíðar þess sem áður var við stjórnvölinn. Ef eitthvert lið hefði því átt að hafa fæturnar á jörðinni…

Síðasta sumar komu kaupsýslumenn að Notts County og þóttust hafa fullar hendur fjár. Þeir gáfu sig út fyrir að vera fulltrúar vellauðugra útlendinga sem ætluðu að gera þetta sögufræga lið, að stórveldi. Stuðningsmennirnir seldu þeim félagið greiðlega (enda reksturinn þungur) og hölluðu sér aftur, bíðandi eftir litlu Chelsea-ævintýri.

Sven Göran Ericsson var ráðinn sem einhvers konar yfirmaður knattspyrnumála. Sol Campell var fenginn til liðsins og smalað saman mannskap sem átti að rúlla upp 2. deildinni (sem í gamla daga hét 4. deild). – Fæstir létu það angra sig þótt að erfitt væri að fá á hreint hvaða útlensku auðjöfrar stæðu á bak við verkefnið. Enska deildin, sem þykist þurfa að votta heilindi þeirra manna sem eignast knattspyrnufélög, ákvað að sætta sig póstadressu í aflandsríki. Það vildi nefnilega enginn verða til að stöðva mögulega stórfjárfestingu óðra milljarðamæringa.

David Conn fylltist grunsemdum og fljótlega byrjaði hann að skrifa pistla um að ekki væri allt með felldu hjá Notts County. Hann færði fyrir því rök að líklega væru engir útlenskir gullgrísir á bak við verkefnið, heldur gamalkunnir breskir vafasamir bissnesmenn. Fyrir þetta var hann nánast stjaksettur af stuðningsmönnum Notts County. Hver sá sem vogaði sér að efast um drauminn var úthrópaður sem öfundarmaður.

Og vissulega var ekki annað að sjá en að peningarnir flæddu í stríðum straumum. Casper Schmeichel var ráðinn á svimandi launum og bónusum. Jafnvel almennir starfsmenn voru á kjörum sem áttu engar hliðstæður. Nánast jafn skyndilega og lestin fór af stað, keyrði hún á vegg. Fjárfestarnir hrökkluðust í burtu og þegar nýir eigendur fóru að rýna í tölurnar kom í ljós botnlaus hallarekstur, skuldsetning og sukk.

Örfáum árum eftir að stuðningsmenn Notts County börðust í bökkum við að reyna að bjarga félaginu sínu – er það aftur komið í sömu stöðu. Og það fáránlega er að allt fólkið sem upplifað hafði martröðina 2003, var til í að trúa á nýja drauminn árið 2009.

Ég held að skýringin á þessu sé ekki sú að fólkið í Nottingham sé öðruvísi en gerist og gengur. Ég held þvert á móti að fólkið þar sé nákvæmlega eins og fólk annars staðar – og einmitt þess vegna hafi það verið svo reiðubúið til að láta plata sig á nýjan leik. Samkvæmt þessari kenningu verðum við Íslendingar alveg grallaralausir í hruninu 2014.