Tóbak

Ég er enn að klóra mér í kollinum yfir fréttinni um daginn af sígarettunum sem voru fluttar hingað til lands í gegnum íslenska heildsölu, gagngert til þess að farga þeim.

Í fréttinni af málinu kom fram hjá talsmanni heildsölunnar að þetta hefði verið gert til að framleiðandinn gæti fengið endurgreidd opinber gjöld í upprunalandinu, með því að skrá retturnar sem útflutning.

Er það bara ég sem er svona vitlaus – eða var talsmaðurinn ekki með þessu að viðurkenna þátt fyrirtækisins í svindli þar sem verið var að svíkja fé út úr ríkissjóði erlends lands? Hver var þóknun íslenska fyrirtækisins fyrir að leppa þessi sýndarviðskipti? Og þýkir það bara eðlilegt að menn beri svona nokkuð á borð?

Spyr sá sem ekki veit.