Sverige

Ég var um daginn að reyna að skjóta á það hversu oft ég hef farið inn í Elliðaárvirkjun. Mér reiknaðist til að það sé svona 1.200 sinnum. Samt er það alltaf jafn gaman – enda stöðin alveg einstaklega skemmtileg.

Eftir svo margar heimsóknir, gerir maður ekki ráð fyrir að rekast á neitt nýtt sem kemur á óvart. Í gær rölti ég hins vegar yfir í stöð með hóp af nemum úr Tækniskólanum. Þá kom Benni sem er að leysa einn vélstjórann af hólmi til mín og vakti athygli mína á kúnstugu atriði.

Í vélarsalnum eru fjórar túrbínur. Þær eru allar frá sama framleiðanda. Þrjár þær minni eru nákvæmlega eins en sú stærsta er aðeins frábrugðin, enda tíu árum yngri. Túrbínuframleiðandinn var frá Kristianshamn í Svíþjóð – og þar er fléttan…

Fyrstu tvær vélarnar voru settar upp árið 1921 og á þeim stendur framleiðsluárið 1920, nafn framleiðandans og framleiðslulandsins Sverge – þriðja vélin er nákvæm eftirmynd af vél tvö. Hún var sett upp 1923 og framleiðsluárið á henni er 1923. Í gærmorgun var Benni að þrífa vélarnar þegar hann rak augun í að á henni (og raunar stærstu vélinni frá 1932) stendur skýrt og greinilega Sverige.

Það er með ólíkindum að maður hafi getað haft þetta fyrir augunum öll þessi skipti í öll þessi ár, án þess að átta sig á misræminu. Nú mættu sænskumælandi lesendur þessarar síðu uppfræða mig um það hvort einhver opinber breyting á rithætti nafns Svíþjóðar hafi átt sér stað þarna í byrjun þriðja áratugarins?

* * *

Í þá mund sem við Benni stóðum á salargólfinu og klóruðum okkur í kollinum yfir þessu skrítna ritháttarbrengli, kom einn Tækniskólamaðurinn vappandi og spurði: „Strákar – ég var að hugsa… af hverju stendur Sverge á þessum tveimur vélum en Sverige á þessum?“