Opið bréf til mannsins á tökkunum

Kæri maður á tökkunum

Einhverjir hefðu eflaust stílað þetta bréf á útvarpsstjóra, yfirmann dagskrárdeildar sjónvarps eða menntamálaráðherra. Sjálfur kýs ég að hjóla beint í aðalmanninn – þann sem hefur valdið. Þig.

Ég geri mér grein fyrir því að það getur varla verið gaman að vera maðurinn á tökkunum meðan á barnaefninu stendur. Flestir foreldrar þurfa að afplána nokkur misseri af barnatímum, rétt á meðan grísirnir eru á tilteknum aldri. Maðurinn á tökkunum þarf hins vegar ár eftir ár að þola sama efnið, sömu skríparaddirnar og sömu óþolandi stefin. Við þetta bætist að þættirnir íbarnatímanum eru styttri en í fullorðinsefninu, svo það þarf enn oftar að ýta á takka og skipta um spólur.

En þótt þetta sé varla skemmtilegasta verkefnið, er ástæðulaust að gera það illa, sem leiðir mig að erindinu – tónlistarmyndböndunum.

Tónlistarmyndbönd eru snjöll leið fyrir ykkur mennina á tökkunum til að stilla af dagskránna. Frekar en að varpa upp stillimyndinni í 3-4 mínútur til að fylgja auglýstri dagskrá er rakið að spila eitt tónlistarmyndband… hverjum finnst það ekki skemmtilegt?

Í myndbandasafni sjónvarpsins eru vafalítið mörghundruð tónlistarmyndbönd sem ætluð eru börnum. Jafnvel þótt við teldum bara með þau sem tekin hafa verið upp af RÚV í gegnum tíðina, er um fjölmörg lög að ræða.

Hvers vegna í ósköpunum – og nú spyr ég þig sem fagmann – spilið þið sömu helvítis 4-5 lögin aftur og aftur og aftur og AFTUR??? Heiðar í Botnleðju hef ég aldrei hitt og Halla félaga hans varla nema einu sinni eða tvisvar. Samt er mér eiginlega farið að vera illa við þessa ágætu drengi, þökk sé gegndarlausri ofspilun RÚV á laginu um strákinn sem læsist inni í skólanum sínum. Ég held fjandakornið að það lag sé spilað annan hvorn dag.

Ég er ekki ofbeldishneigður maður. Hef meira að segja starfað talsvert innan friðarhreyfingarinnar. Samt langar mig stundum til að stjaksetja Róbert bangsa, sem syngur um tilþrifalítil ævintýri sín í sjónvarpinu 3-4 sinnum í viku.

Flestar útvarpsstöðvar eru með spilunarlista fyrir dagskrárgerðarfólkið sitt að velja úr. En spilunarlisti upp á bara 4-5 lög líðst varla í Guantanamo, hvað þá í samfélagi frjásra manna.

Mér detta þrjár skýringar í hug á þessari óáran:

i) Einhver starfsmaður RÚV er óeðlilega hrifinn af söng prinsessunnar í Tannpínulandi m. Birgittu Haukdal og getur einfaldlega ekki hlustað nógu oft á þessi eftirlætislög sín. – Ég legg þá til að viðkomandi verði færður til í starfi.

ii) Stjórnendur barnaefnisins líta á það sem hlutverk sitt að búa börnin undir líf í síbyljuveröld og spili þess vegna sama efnið undir drep. – Ég legg til svipaða lausn og hér að ofan.

iii) Stjórnendur útsendingarinnar hlusta aldrei á efnið sem þeir eru að senda út, heldur eru með eigin tónlist í æpoddnum og leysa krossgátur í vinnunni.

Þrátt fyrir kreppu og niðurskurð hlýtur fjandakornið að mega splæsa í starfsmann sem tæki dagpart í myndbandasafninu og tíndi til nokkra tugi gamalla barnalaga sem hægt væri að spila mili liða. Mæli sérstaklega með Hatti og Fatti. Þeir voru fínir.

Þú ræður þessu, það vita allir.

Kv,

Stefán

Join the Conversation

7 Comments

  1. JÁ!!!!!!!! Allir heimsins guðir forði okkur frá þessari óáran. Katla María, Sigga Beinsteins, eitthvað annað en drengirnir tveir sem eru samt hinir indælustu menn. Meðferðin á þessu lagi er byrjuð að minna mig á Hey Baby með DJ Ötzi sem var nauðgað á alla kanta í byrjun fyrsta áratugar þessarar aldar. Svo slæm er misnotkunin.

  2. Það má einnig heimfæra þennan góða pistil yfir á spilun tónlistarmyndbanda yfirhöfuð í ríkissjónvarpinu. Það gerist stundum (örsjaldan reyndar) að slott myndist fyrir 3-4 mín myndband í kvölddagskrá sem blessunarlega er ekki maukfyllt með auglýsingum. Þá hafa yfirleitt verið spiluð sömu 2-3 myndböndin (eitt þeirra er slakt lag með hinum annars ágæta KK). Kommon, sjeip öp!

    Gæti líka stundum orgað yfir því hvað tónlistarmyndbönd eru vannýttur akur í sjónvarpsflórunni (viðbjóðslega handboltarokkið slash hnakkapoppið á daginn á stöð 2 extra telst ekki með). Bestu klassísku myndböndin er ekki hægt að jútjúbba lengur út af óskiljanlegum licence protection ástæðum (eins og fólk sé mikið að kaupa sér dvd diska með eitthverjum öðrum en 15 frægustu hljómsveitum allra tíma, sem geyma bara myndbönd).

  3. Ég svara þessu nú bara eins og einn samstarfsmaður minn gerði þegar ein af samstarfskonunum kom og kvartaði við hann.

    „Fyrirgefðu, en ég sé þetta bara ekki sem vandamál.“

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *