Sopið kálið?

Smugan vekur athygli á kyndugu fundarboði sem blasað hefur við fólki á göngum Háskólans. Það er vissulega skringilegt að sjá rektor og formann Stúdentaráð á samkomu sem gæti helst verið súpufundur í Valhöll. Það er líka furðulegt að Sjálfstæðisflokkurinn kjósi að auglýsa fundi sína á þann hátt að hvergi sé getið um fundarboðanda.

En það var eitt í viðbót skrítið við þessa auglýsingu – og það fór alveg framhjá blaðamanni Smugunnar:

Á auglýsingunni er Áslaug Friðriksdóttir titluð borgarfulltrúi.

Nú er það vissulega ekkert ólíklegt að Áslaug Friðriksdóttir verði borgarfulltrúi í vor – þótt til þess þurfi flokkurinn að ná sama árangri og fyrir fjórum árum. En eins og Gísli Marteinn hefði getað varað meðframbjóðanda sinn við… þó að það sé LÍKLEGT að maður verði kominn með nýjan titil innan fáeinna vikna eða mánaða – þá er varasamt að byrja of snemma að prýða sig með slíkum nafnbótum.