Kosningataktíkin?

Mig minnir að það hafi verið í borgarstjórnarkosningunum fyrir fjórum árum sem ég bloggaði um þá taktík Framsóknarmanna að nota helst ekki nafn flokksins síns í auglýsingum og prentefni. Þess í stað var kvittað undir allar auglýsingar með „exbé“. Færslan vakti nokkra athygli og ég lenti í smáorðaskaki við sára Framsóknarmenn sem sökuðu mig um skæting og útúrsnúninga.

Að þessu sinni sýnist mér Sjálfstæðismenn í Reykjavík hins vegar ætla að setja ný viðmið í pólitískum feluleik – plottið virðist ganga út á að nefna helst hvorki flokkinn né listabókstaf hans á nafn, nema í smáa letrinu neðst.

Í sjálfu sér hef ég ekkert fyrir mér í þessu annað en tvö lítil dæmi – en það eru reyndar einu dæmin sem ég hef rekist á um fundarboð eða kynningarefni frá Sjálfstæðisflokknum fyrir þessar kosningar:

Um daginn fjallaði ég t.d. um auglýsingu frá Sjálfstæðisflokknum um fund sem haldinn var upp í Háskóla. Þótt giska mætti á það af lista framsögumanna hverjir stæðu fyrir samkomunni, var ekkert merki um slíkt. Enginn fundarboðandi skráður og ekki vísað í neina vefsíðu. Á fésbókarsíðu sem stofnuð var um sama atburð og í fréttatilkynningunni sem sett var inn á vef Háskólans var heldur ekki múkk um þetta. Skrítið – en gæti verið mistök.

Í dag fékk Steinunn svo inn um lúguna bréf. Ekki var getið um sendanda á umslaginu og límmiðinn með nafninu hennar gaf ekki á nokkurn hátt til kynna að um fjölpóstsendingu væri að ræða. (Það held ég reyndar að sé lögbrot – en látum það liggja á milli hluta.)

Sjálft bréfið er hvorki með haus né fót sem gefur vísbendingar um senanda. Það er undirritað af sex konum sem ekki bera neina titla. Enginn þeirra er þjóðþekkt fyrir störf sín á sviði stjórnmálanna, en þeir sem eru vel að sér í þeim fræðum sjá þó strax að þetta eru framákonur í Sjálfstæðisflokknum.

Bréfið er boð á leiðtoganámskeið fyrir konur. Lýst er kostum námskeiðsins og farið yfir dagskránna og praktísk atriði. Það er ekki fyrr en í sjöundu og næstsíðustu málsgrein að fram kemur að Sjálfstæðiskonur í Reykjavík standi fyrir námskeiðinu – og skráningarnetfangið endar á xd.is. Ég hef aldrei séð annað eins sendibréf frá stjórnmálaflokki.

Nú er ég kannski að lesa of mikið í tvö afmörkuð dæmi – en miðað við þetta, sýnist mér að upplegg kosningastjóra Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar sé á þá leið að reyna að komast í gegnum nokkuð eðlilega kosningabaráttu án þess að nefna flokkinn á nafn. Ég spái því að óhræsinu – fálkamerki íhaldsins – verði gefið algjört frí þetta vorið.

…kannski ekki svo galin taktík?

Join the Conversation

9 Comments

 1. Ekki mættu nú margir á þennan háskólafund, þannig að sú reynsla hefur varla verið til að hvetja til þessarar aðferðafræði,

 2. árið sem ég var í stjórn Vöku hélt félagið reglulega hádegisfundi og mikið lagt upp úr því að auglýsa þá sem best um allan háskóla og þá þrælmerkta Vöku í bak og fyrir. Það mætti yfirleitt ekki kjaftur og yfirleitt nokkur fyrirhöfn að draga dygga félagsmenn á staðinn. En mætingin var aukaatriði – það átti víst að skipta meira máli fyrir félagið sem þá var enn í sinni löngu útlegð, að láta vita af því það væri til, og að gera á þeim árstímum sem ekki var kosningabarátta.

  Ég skil ekki hvaða „value“ kosningastjórar íhaldsins ættu að sjá í því að halda fund og halda því kyrfilega leyndu að hann væri á vegum flokksins. Það eru hverfandi líkur á því að óákveðnir kjósendur fylki liði á fundinn – maður hefði haldið að tilgangurinn væri að halda því að kjósendum að flokkurinn hefði einhverjar hugmyndir og frá einhverju að segja.

 3. Tja Stefán, þetta er nú flokkurinn sem fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1998 sendi öllum nýjum kjósendum í höfuðborginni ómerkta vídeospólu (já, VHS) í ómerktu brúnu umslagi. Myndbandið sem var svo mikilvægt að koma á framfæri má sjá h´r fyrir neðan:

 4. Ég fékk einmitt svona bréf þar sem mér var boðið að taka þátt í leiðtoganámskeiði. Hélt náttúrulega fyrst að nú hefðu menn loks áttað sig á mikilvægi kennarastarfsins og þess vegna hefði ég orðið fyrir valinu. En svo sá ég neðar í bréfinu að ég átti að gefa upp nafn, netfang, heimilsfang, póstnúmer og símanúmer í netfang sem endaði á xd. Mér finnst það einhvern veginn benda til að konurnar sem standa að þessu séu að reyna að safna fólki í Sjálfstæðisflokkinn. Kannski hefur fækkað eitthvað hjá þeim að undanförnu?

 5. Í tilefni af upphafi faerslunnnar má kannski rifja það upp að okkur þótti gagnrýni á notkun kosningamerkisins Exbé koma úr hörðustu átt frá félögum í stjórnmálaflokki sem sjaldan kallar sig annað en Vaffgé!

  Og talandi um kosningataktik. Markar þessi faersla þá upphaf þess að aðrar kosningarnar í röð aetli Vaffgé að keyra á „sjáið þeir eru svo ovinsaelir að þeir þora ekki að nota nafnið sitt“ taktíkinni, hvort sem það er rakalaus þvaettingur eður ei?

  Ég var nefnilega að vonast eftir málefnalegri baráttu en svo.

 6. Óskaplega liggur illa á þér nafni. Á ég virkilega að þurfa að setja sérstakan disclaimer á þessa síðu þess efnis að það sem hér er skrifað séu prívat vangaveltur mínar en ekki opinber afstaða VG, enda gegni ég þar engum embættum.

  En finnst þér Stefán virkilega ekkert skringilegt við að stjórnmálaflokkur boði til funda án þess að taka fram hver sé fundarboðandi? – Eða standi fyrir fjölpóstsendingum þar sem þarf að rýna í skeytið til að sjá hver sé raunverulegur sendandi?

 7. En annars rétt til að halda sögunni til haga…

  Stóra Exbé-málið – sem Stefán Boga minnir núna að hafi verið aðalkosningamál VG fyrir fjórum árum – var þannig vaxið að ég skrifaði stutta færslu um Exbéið, sem tæpast hefði átt að ná athygli nokkurs manns. Ástæðan fyrir að þetta vatt upp á sig var hins vegar sú að frambjóðandi Framsóknar svaraði færslunni og staðhæfði að það væri söguleg hefð fyrir því að Framsóknarflokkurinn auglýsti undir merkjum B-listans í kosningum í Reykjavík.

  Töfratólið timarit.is var þarna komið til sögunnar sem öflugt leitartæki og ég gerði mér það til dundurs að sannreyna þessa fullyrðingu. Og ég man rétt þurfti að fara aftur á þriðja áratuginn til að finna dæmi um kosningar þar sem Framsókn flaggaði B-listabókstafnum í Reykjavík. Það voru því bætiflákar frambjóðandans sem gerðu málið fréttnæmt.

  En ljótt er að heyra að 2-3 bloggfærslur mínar hafi sest svo á sál Framsóknarmanna að þá minni í dag að þær hafi verið þungamiðjan í málflutningi heils stjórnmálaflokks í kosningum…

 8. Þú ert minn veðurviti um allt sem gerist innan VG ;o) Og hugmyndafræðingur ertu, þú getur varla svarið það af alveg af þér.

  En gremja mín vegna málflutningsins fyrir fjórum árum beinist alls ekki að mest að þér og þeirri faerslu sem þú skrifaðir, þó þú hafir orðið fyrir henni nú, heldur að öðrum flokksbraedrum þínum og systrum. Helst festust mér í minni ömurleg skrif Ömundar Jónassonar.

  Ég er ekkert að verja aðferðafraeði Sjálfstaedisflokksins. En ég áskil mér rétt til að gagnrýna málflutning þinn og annara VG-manna alveg eins og þú hefur rétt til að gagnrýna þá og mig.

 9. Mér þykir þó enn eftirtektarverðari taktík Ólafs F. Magnússonar, sem auglýsti H-listann af miklum móð í Fréttablaðinu undir merkjum Borgarmálafélags F-lista. Það er skrýtnasta branding-æfing sem ég man eftir.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *