Kosningataktíkin?

Mig minnir að það hafi verið í borgarstjórnarkosningunum fyrir fjórum árum sem ég bloggaði um þá taktík Framsóknarmanna að nota helst ekki nafn flokksins síns í auglýsingum og prentefni. Þess í stað var kvittað undir allar auglýsingar með „exbé“. Færslan vakti nokkra athygli og ég lenti í smáorðaskaki við sára Framsóknarmenn sem sökuðu mig um skæting og útúrsnúninga.

Að þessu sinni sýnist mér Sjálfstæðismenn í Reykjavík hins vegar ætla að setja ný viðmið í pólitískum feluleik – plottið virðist ganga út á að nefna helst hvorki flokkinn né listabókstaf hans á nafn, nema í smáa letrinu neðst.

Í sjálfu sér hef ég ekkert fyrir mér í þessu annað en tvö lítil dæmi – en það eru reyndar einu dæmin sem ég hef rekist á um fundarboð eða kynningarefni frá Sjálfstæðisflokknum fyrir þessar kosningar:

Um daginn fjallaði ég t.d. um auglýsingu frá Sjálfstæðisflokknum um fund sem haldinn var upp í Háskóla. Þótt giska mætti á það af lista framsögumanna hverjir stæðu fyrir samkomunni, var ekkert merki um slíkt. Enginn fundarboðandi skráður og ekki vísað í neina vefsíðu. Á fésbókarsíðu sem stofnuð var um sama atburð og í fréttatilkynningunni sem sett var inn á vef Háskólans var heldur ekki múkk um þetta. Skrítið – en gæti verið mistök.

Í dag fékk Steinunn svo inn um lúguna bréf. Ekki var getið um sendanda á umslaginu og límmiðinn með nafninu hennar gaf ekki á nokkurn hátt til kynna að um fjölpóstsendingu væri að ræða. (Það held ég reyndar að sé lögbrot – en látum það liggja á milli hluta.)

Sjálft bréfið er hvorki með haus né fót sem gefur vísbendingar um senanda. Það er undirritað af sex konum sem ekki bera neina titla. Enginn þeirra er þjóðþekkt fyrir störf sín á sviði stjórnmálanna, en þeir sem eru vel að sér í þeim fræðum sjá þó strax að þetta eru framákonur í Sjálfstæðisflokknum.

Bréfið er boð á leiðtoganámskeið fyrir konur. Lýst er kostum námskeiðsins og farið yfir dagskránna og praktísk atriði. Það er ekki fyrr en í sjöundu og næstsíðustu málsgrein að fram kemur að Sjálfstæðiskonur í Reykjavík standi fyrir námskeiðinu – og skráningarnetfangið endar á xd.is. Ég hef aldrei séð annað eins sendibréf frá stjórnmálaflokki.

Nú er ég kannski að lesa of mikið í tvö afmörkuð dæmi – en miðað við þetta, sýnist mér að upplegg kosningastjóra Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar sé á þá leið að reyna að komast í gegnum nokkuð eðlilega kosningabaráttu án þess að nefna flokkinn á nafn. Ég spái því að óhræsinu – fálkamerki íhaldsins – verði gefið algjört frí þetta vorið.

…kannski ekki svo galin taktík?