Á morgun (þriðjudag) kl. 16:30 mæti ég á fund. Það er formlegur stofnfundur félags – Hagstundar, félags stundakennara á háskólastigi.
Að mínu mati er þetta hið mikilvægasta félag og auðvitað ættum við ekki að þurfa að stofna það nú, árið 2010. Svona félag ætti að eiga sér áratuga sögu og vera föst og mikilvæg eining innan háskólakerfisins.
Í sjálfu sér væri auðvelt fyrir mig að leiða málefni stundakennara hjá mér. Ég hef gripið í stundakennslu annars lagið síðustu árin, frekar mér til skemmtunar og endurmenntunar en nokkuð annað. Ég er ekki að reyna að lifa af þessu – og ef háskólinn þarf ekki á mínu kennsluframlagi að halda eitthvert árið, þýðir það bara aðeins meiri frítími í önnur verkefni.
En þótt hagsmunirnir brenni ekki á mér persónulega, finnst mér þetta vera barátta sem skiptir máli. Háskólinn er að talsverðu leyti rekinn af okkur stundakennurunum sem erum lang-lang-lang ódýrasti starfskraftur skólans. En þrátt fyrir að framlag þessa hóps sé svo mikilvægt fyrir stofnunina, fer lítið fyrir þakklæti. Skólinn stendur sig ekki í stykkinnu varðandi grunnupplýsingagjöf. Öll samningamál eru í ólestri. Vinnuaðstaðan er engin. Kjörin eru afleit. Við erum ekki einu sinni tryggð í vinnunni. Hvað gerist t.d. ef óður nemandi gengur í skrokk á stundakennara eða kennarinn fær skjávarpa í hausinn?
Ég reikna með að halda áfram að grípa í stundakennslu við HÍ á næstu árum (ef menn vilja þá hafa mig) og mér mun áfram finnast gaman að sinna þessu starfi. En ég vil sjá breytingar – breytingar í þá átt að þessi vinna sé metin að verðleikum. Þess vegna mæti ég á fundinn.