Tölfræði og íþróttir

Einhvers staðar sá ég því haldið fram að fótbolti geti aldrei orðið ein af stóru íþróttunum í Bandaríkjunum af tveimur ástæðum. Annars vegar væru ekki nógu mörg leikhlé til að íþróttin passaði fyrir bandarískt sjónvarp. Og hins vegar væri ekki hægt að smætta leikinn niður í tölfræðiupplýsingar.

Bandarískar íþróttir (ruðningur, hafnarbolti, íshokký og karfa) eiga það nefnilega sameiginlegt að hægt er að safna geysilegu magni af tölfræðiupplýsingum sem í raun gæfu mjög glögga mynd af styrkleika liða og leikmanna. Þetta er miklu erfiðara með fótboltann. Það þarf t.d. ekkert að segja svo mikið um fótboltaleik þótt annað liðið hafi verið með boltann 60% af tímanum eða fengið sjö horn á móti einu.

Fyrir íþróttasagnfræðinörd eins og mig er erfitt annað en að dást að því hversu langt Bandaríkjamenn geta gengið í að velta sér upp úr tölfræði. Þessi frétt Mbl í dag er þó einhvers konar met:

Montreal tókst hið ómögulega

Montreal Canadiens skráði nafn sitt í sögubækurnar í bandarísku NHL íshokkídeildinni í gær með 2:1 sigri á útivelli gegn Washington Capitals í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Montreal var í áttunda sæti eftir deildarkeppnina en Washington var með besta árangurinn í því efsta. Washington náði yfirhöndinni í einvíginu og komst í 3:1 en Montreal vann næstu þrjá leiki og tryggði sér sæti í undanúrslitum. Aldrei áður hefur lið í áttunda sæti unnið þrjá leiki í röð í stöðunni 3:1 í úrslitakeppni. Úrslitin í Austurdeild NHL deildarinnar hafa komið á óvart því þrjú efstu liðin í deildarkeppninni eru úr leik eftir fyrstu umferð.

Jahá… sjáum til hvort ég hafi ekki örugglega náð þessu. Montreal hefur sem sagt brotið blað í sögunni, hvorki meira né minna, með því að verða FYRSTA ÁTTUNDASÆTISLIÐIÐ TIL AÐ VINNA EINVÍGI Í ÚRSLITAKEPPNI 4:3 EFTIR AÐ HAFA LENT 1:3 UNDIR.

Við lifum svo sannarlega á sögulegum tímum.

Join the Conversation

6 Comments

 1. Fótbolti er reyndar stærsta íþróttin í Bandaríkjunum en ruðningur (rugby) er lítið sem ekkert stunduð 🙂 Alls staðar sem maður fer er ‘fótbolti þetta og fótbolti hitt’

  he he

  Ég veit að það er ekki hægt að þýða orðið Soccer öðruvísi en fótbolti, en ef þú talar um fótbolta í Bandaríkjunum þá hugsar enginn um hringlóttan bolta.

 2. Fínn pistill.

  Reyndar margtuggin klisja þetta með leikhléafæðina (úff þetta var örugglega ekki rétt íslenska) og auglýsingar en þetta með tölfræðiupplýsingarnar er nýr vinkill fyrir mig.

  Reyndar tel ég þó að ef mikl eftirspurn hins almenna fótboltaáhorfanda væri fyrir hendi, þá mætti afla mun meiri tölfræðigagna um hvern fótboltaleik fyrir sig og þá sérstaklega á einstaklingsbasis. Er það ekki rétt að ríkustu klúbbarnir eru með 11 frammistöðunjósnara á áhorfendabekkjunum í að kortleggja „hverja hreyfingu“ – 1 njósnari per leikmann. Eða svo segir sagan.

 3. Það er alveg hægt að taka saman fullt af tölfræði um fótbolta. Hægt að telja skot, skottilraunir, mörk, sendingar, sendingar sem heppnast, sendingar sem fara á andstæðing, sendingar sem fara beint út af vellinum, stolna bolta, tæklingar, tæklingar sem heppnast, stoðsendingar, aðra sendingu áður en mark er skorað, hvernig markvörður stendur sig í stöðunni einn á móti einum (ver, er skorað hjá honum, skotið framhjá), hvernig sóknarmaður stendur sig í stöðunni einn á móti einum (skorar, skýtur framhjá, markvörður ver), brot leikmanns, brotið á leikmanni, skot sem markvörður fær á sig, skot sem markvörður ver, skot sem fara í markið, skot sem fara í stöng eða slá, skot sem fara framhjá, tímann sem hver leikmaður er með boltann. Og örugglega fullt, fullt fleira.

 4. Og að sjálfsögðu sigurhlutfall í leikjum hvers leikmanns. Hægt að komast að alls konar vitleysu þannig. Eins og til dæmis þeirri að þann tíma sem Grétar Rafn Steinsson var á Skaganum (og löngum einn besti ef ekki allra besti leikmaður liðsins) þá gekk liðinu betur þegar hann var ekki með heldur en þegar hann spilaði.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *