Létt getraun…

Það er alltof langt síðan ég efndi til getraunar hér á blogginu. Úr því skal nú bætt, svör fari í athugasemdakerfið að venju:

Eftir hverjum eftirtalinna eru þessi orð höfð: „Það þarf mann og konu til að búa til barn og mér finnst rökrétt að það þurfi mann og konu til að ala það upp.“

i) Snorra í Betel

ii) Tony Blair

iii) Sr. Geir Waage

iv) Benedikt sextánda

v) Jóni Gnarr

Og giskiði nú…

Join the Conversation

 1. Avatar
 2. Avatar
 3. Avatar
 4. Avatar
 5. Avatar
 6. Avatar

14 Comments

 1. Mikið helvíti var það snjallt af þér að passa að það sé ekki hægt að googla svarið.
  Ég tryði að sjálfsögðu Snorra í Betel, prestinum og páfanum helst til að láta þessa vitleysu útúr sér en ætla að leyfa mér að giska á að Gnarrinn hafi skrifað þetta í bakþanka Fréttablaðsins þegar hann var á sínu trúaðasta tímabili.
  E

 2. Svarið er augljóst af þeirri einföldu staðreynd að þú og Ármann Jakobsson og kannski fleiri hafið ákveðið að grafa ýmislegt „skítugt“ upp úr fortíð Jóns Gnarr, jafnvel þó það komi ekki hefðbundnum borgarmálefnum við. Nei nei tölum um Guðlaug Þór og Móselögin í skólum þá að námskrá komi frá Alþingi og ráðherra. Ekki ósvipað og repúblikanarnir í Bandaríkjunum. Ykkur finnst greinilega vont að Vinstri grænir tapi fylgi og ætlið að leita allra leiða til að bregðast við. Nú er ég ekki sammála þeim skoðunum sem koma fram í þessum pistli Jóns og vona að hann hafi skipt um skoðun, ekki vegna þess að hann er í pólítík heldur bara vegna þess að hann er manneskja en aðferð ykkar er bara svo lýsandi fyrir hvað flokkapólítík getur verið á lágu plani. Það er kannski rétt að það komi fram að lokum að ég ætla ekki að kjósa Besta flokkinn og hef verið á vinstri vængnum en ég er orðinn mjög leiður á íslenskri flokkapólítík, sérstaklega þegar meðölum sem beitt er fer að svipa til þess sem við höfum þekkt frá hægri.

 3. Ég skrifa undir hvert einasta orð í athugasemdum EG. Hefði ekki getað orðað þetta betur sjálfur. Ég spyr: Verða allir (fjór)flokkar eins
  a) þegar nær dregur kosningum?
  b) þegar koma þarf höggi á andstæðinginn?

 4. Sæll Eiríkur

  Ég næ ekki alveg hugsuninni í þessari athugasemd þinni, þar sem segir: „Nú er ég ekki sammála þeim skoðunum sem koma fram í þessum pistli Jóns og vona að hann hafi skipt um skoðun, ekki vegna þess að hann er í pólítík heldur bara vegna þess að hann er manneskja…“

  Bíddu, það er einmitt VEGNA ÞESS að Jón hefur ákveðið að fara út í pólitík sem skoðanir hans á hinum fjölbreytilegustu málum eru farnar að koma mér og öðrum við. Það er bara ekkert eðlilegra en að þeir sem sækjast eftir frama í stjórnmálum þurfi að standa skil á því sem þeir hafa áður sagt í þjóðmálaumræðunni.

  Mér finnst t.d. skipta máli þegar kemur að þessum kosningum hvað einstakir frambjóðendur sögðu á tímanum fyrir hrun – klöppuðu þeir fyrir útrásinni og þjóðernisrembingnum eða vöruðu þeir við? Auðvitað eru ríkisfjármál ekki á könnu borgarstjórnar, en að mínu mati er dómgreind fólks á einu sviði góð vísbending um hvernig það mun reynast á öðrum sviðum.

  Í tilfelli Besta flokksins er það reyndar sérstaklega rökrétt að rýna í gömul skrif frambjóðenda í ljósi þess að flokkurinn hefur ekki eiginlega stefnu, heldur höfðar höfðar sjálfur til þess að málið snúist um persónur þessara einstaklinga. Kjósendur eru beinlínis beðnir um að meta framboðið út frá ágæti fólksins á listanum – það er því ekki hægt að kvarta þótt ekki líki öllum það sem þeir sjá.

  Varðandi skoðanir þessa tiltekna frambjóðenda á fjölskyldumálum, þá er ég heldur ekki sammála því að þær eigi engu máli að skipta. Sveitarstjórnarmál snúast að miklu leyti um fjölskyldupólitík.

  Á sama hátt snúast þau um félags- og velferðarmál og þar verð ég að segja að Fréttablaðsskrif Jóns Gnarr um fólk sem betlar á götum úti valda mér hugarangri. Þau voru eitthvað á þá leið að Jón væri alveg á móti því að láta betlara fá peninga, því þeir létu hann ekki fá neitt í staðinn. Þess vegna ættu betlarar að hafa sig í að glamra á gítar eða lesa ljóð – og þá væri Jón til í að taka upp pyngjuna. Það er lífssýn sem ég á afar erfitt með að samsama mig með.

 5. Ég held að það sem sé kjarninn á bak við athugasemd EG sé það að *þrátt* fyrir að flestir viti að JG sé með frekar afleitar hugmyndir, þá er hann samt sem áður orðinn stærsti flokkurinn, og fjórflokkurinn (ekki bara VG) hafa engin ráð gegn því.

  Það er þessi ráðleysi sem mér finnst svo áhugaverður, og lýsir í raun það sem ég verð að segja sé sameiginlegt hugmyndafræðilegt gjaldþrot fjórflokkanna. Þeir einfaldlega bjóða ekki upp á neitt sem að kjósendur vilja. Það eru bara hörðustu stuðningsmenn flokkanna sem hafa áhuga á að kjósa þá. Hvers vegna er það?

  Ég sjálfur tel mig vera til vinstri í stjórnmálum en ég ætla að skila auðu. Flestir mínir vinir eru til vinstri í stjórnmálum og en enginn þeirra ætlar að kjósa vinstri flokk, þeir ætla annað hvort að mæta ekki, skila auðu eða kjósa besta flokkinn. VG og hinir flokkarnir reyndar líka, ættu að spyrja sig, hvers vegna er þetta?

  Svarið hjá mér er einfallt. Til hvers að kjósa VG til dæmis? Helsta ástæðan er að halda öðrum (eins og xd) frá. Mér finnst einfaldlega stjórnmálamenn fjórflokkanna, hvort sem þeir voru þátttakendur eða ekki í atburðarásinni sem leiddu til hrunsins, ekki vera búin að líta í eign barm. Þarna er fólk sem er fyrst og fremst að hugsa um sjálft sig og sína nánustu. Atburði í ríkisstjórn þar sem ráðherrar berjast af kjafti og klóm til að halda sinni stöðu er dæmi um þetta. Ég hélt að það væri merki vinstrimanna að hugsa um heildarhaginn, en það lýsir sig ekki í verkum þeirra því miður.

  Það eru ekki bara Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn sem þurfa að fara í mikla naflaskoðun, heldur Samfylkingin og VG líka. Það er kjarninn bak við velgengni óhefðbundinna flokka í sveitastjórnarmálum.

 6. Sæll Stefán
  Ég átta mig á því að það er erfitt fyrir flokkana að bregðast við grínframboði sem fær svona mikinn stuðning en það er veruleiki sem blasir við. E-r myndi jafnvel líta svo á að þetta sé barátta við vindmyllur. Hins vegar verð ég að viðurkenna að mér finnst leiðinlegt að sjá ykkur nota sömu aðferð og Friðjón appelsínublái og AMX hefði verið stolt af, með því að vera blanda inn í málið ódýrum staðhæfingum sem ekki eiga við. Við getum verið sammála því að fjölskyldumálefni skipta máli í borginni en það er fráleitt að halda því fram að Jón verði í e-i aðstöðu til að auka veg kristinfræði í skólum eða vera með bænahald í nestinu, ef það er þá yfirleitt hans vilji. Það er einfaldlega vegna þess að það er ekki á verksviði borgarstjórnar að ganga frá námsáætlun þó rekstur skóla sé á könnu sveitarfélaga. Það veit Ármann vel en kýs að hengja sig ekki í þannig smáatriði. Svo eru aðrir einstaklingar á lista Besta flokksins sem hafa eflaust allt aðrar skoðanir en Jón á hjónaböndum samkynhneigðra en þú kýst að draga fram gamlan bakþanka sem gæti allt eins verið byggður á skoðun sem Jón hefur fyrir löngu fallið frá. Væri ekki eðlilegra að spyrja hann í dag heldur en að vera að draga fram gamlar syndir? Er það ekki heiðarlegra? Flestir hafa gert mistök á sinni ævi og komist að rangri niðurstöðu. En það er enginn glæpur að skipta um skoðun og ef hann er enn á sömu skoðun þá verða kjósendur að vega það og meta í ljósi þeirra upplýsinga. Og þá er ansi langsótt að bendla hann við útrásina þó hann hafi verið á stuðningslista Guðlaugs Þórs. Er ekki talað um rökþrot þegar menn fara að tala um Hitler? Mér sýnist að örlög orðsins „útrásin“ verði svipuð.

  Ég vil samt að það komi fram að ég er enginn aðdáandi Jóns Gnarr og finnst það framboð ekkert brjálæðilega fyndið eða sniðugt. Þetta er því ekki stuðningsræða fyrir hann. Ég er frekar að gagnrýna þá aðferð að tína ýmilegt til úr fortíðinni til að ata menn auri með ýkjum og jafnvel röngum upplýsingum. Þessi að aðferð er lágkúruleg og ykkur ekki samboðin. Og mér finnst þið einfaldlega hafa misst marks.

  En ef þú skilur þetta ekki þá verður svo að vera. Það er fátt leiðinlegra en ritdeilur þegar deilendur skilja ekki hvorn annan. En ég vona innilega að þú áttir þig.

 7. Eiríkur, af hverju í ósköpunum ertu að rífast í mínu athugasemdakerfi yfir einhverjum atriðum í grein eftir Ármann Jakobsson?

  Kjarni málsins er þessi. Besti flokkurinn er ekki með eiginlega stefnu og segir að það sé ekki vandamálið, því að menn eigi bara að taka afstöðu til persónanna sem eru á listanum – þetta eru þeirra orð, ekki mín. Og hvernig gerir maður það öðru vísi en með því að horfa til þeirra skoðanna sem frambjóðendur hafa tjáð á opinberum vettvangi. Þannig á það líka bara að vera.

  Ef mér dytti í hug að fara í framboð, þá hlyti ég að sætta mig við að fólk læsi það sem ég hef látið frá mér fara í blöðum eða á netinu. Svo einfalt er það nú og ekkert vont eða lúalegt við það.

 8. Ég setti ykkur undir sama hatt í fyrstu athugasemdinni og mér sýnist þú ekki hafa gert athugasemdir við það til að byrja með heldur þvert á móti varðir ýmislegt sem kom fram hjá Ármanni t.d. varðandi afstöðu til útrásarinnar og ríkisfjármál. Ég skil hins vegar vel að þú viljir ekki kannast við þennan pistil Ármanns og biðst innilegrar afsökunar á þessu.

  Við skulum hins vegar láta þetta gott heita enda er mín skoðun á aðferðafræðinni greinilega önnur. Það finnst mér verst.

 9. Ég held nú reyndar að flestir þeirra sem ætla að kjósa Besta flokkinn geri það hvorki vegna þess að stefnumál þeirra séu góð eða fólkið á listanum frambærilegir stjórnendur, heldur einfaldlega til þess að gefa skít í flokkapólitíkina.

  Að gefa Besta flokknum atkvæði sitt er í rauninni yfirlýsing um að það skipti afskaplega litlu máli hvort þeir sem bítast um völdin eru grínistar, trúarnöttarar, geðsjúklingar, forsjárhyggjufíklar, götusnyrtifasistar, jakkafatafasistar, eða gerspilltir skóladrengir.

 10. Gerði athugasemd „Guðjóns“ óvirka. Ég nenni ekki að þrefa við fólk sem ég þekki ekki nema það geri það undir fullu nafni. Kynna sig eða vera úti, takk.

 11. Það bendir flest til þess að Jón Gnarr verði næsti borgarstjóri Reykjavíkur.

  Fyrir þau okkar sem finnst það skipta töluverðu máli hver hefur borgarstjórakeðjuna um hálsinn og hvaða hugmyndafræði hann mun fylgja við stjórn borgarinnar er mikilvægt að einhver upplýsi um atriði eins og þau sem Stefán og Ármann hafa gert. Kannski eru þetta gamlar skoðanir, en á meðan engin er stefnan er erfitt að gera ráð fyrir öðru en að þær séu í fullu gildi.

 12. sjá þetta fólk sem básúnast yfir því að það sé grafið upp fyrir hvað jón gnarr stendur fyrir í pólitík.
  Er maðurinn ekki að sækjast eftir opinberu embætti sem tekur póliískar ákvarðanir. á þá fólk ekki rétt á að vita hvað þær gætu verið?

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *