Ekki brugðið – bara forvitinn

Ég fékk símtal frá blaðamanni DV, sem hafði lesið fésbókarstatus hjá mér. Afraksturinn má sjá hér.

Af fréttinni mætti kannski ætla að ég sé eitthvað ósáttur við að hafa fengið valgreiðslukröfu frá Besta flokknum eða að mér þætti þessi fjáröflunaraðferð óeðlileg. Það er fjarri lagi. Mér finnst ekkert athugavert við að stjórnmálaflokkar eða félagasamtök sendi skeyti tvist og bast til að bjóða fólki að styðja sig. Til dæmis er það miklu betra að flokkar séu fjármagnaðir svona en með sníkjum frá fyrirtækjum.

Ástæða þess að ég fór að velta þessu fyrir mér á fésbókinni er sú að fyrir nokkrum misserum var ég stjórn félags sem íhugaði að fara í svona fjáröflun. Það var hins vegar metið sem svo á þeim tíma að kostnaðurinn við þessa söfnunaraðferð væri of mikill, nema að sent væri á þröngt skilgreindan hóp sem væri mjög líklegur til að borga. Þess vegna þótti mér fróðlegt að vita hvort kostnaðurinn við valgreiðslur hafi minnkað eða hvort Besti flokkurinn hefði skilgreint markhóp með einhverjum hætti.

Ég er sannfærður um að við eigum eftir að sjá þessa innheimtuaðferð snaraukast á næstu árum – en um leið á hún eftir að verða ómarkvissari.

Eins og staðan er í dag, fæ ég kannski 1-2 valgreiðslur á mánuði í heimabankann minn. Þær birtast innan um aðra reikninga: félagsgjöld, lánaafborganir o.s.frv. Þar sem þetta eru fáir seðlar, eru ágætar líkur á að maður samþykki þá með hinum reikningunum (munar ekki um kepp í sláturtíð). Ég er hins vegar viss um að þegar velflest líknarsamtök, stjórnmálahreyfingar og áhugamannafélög verða farin að kveikja á þessari leið – þá munu bankarnir annað hvort snarhækka þóknun sína eða breyta uppröðuninni þannig að þessir seðlar birtist ekki á sama stað og „alvöru“ reikningar.

Gaman væri að fá upplýsingar um málið frá e-m sem þekkir til.

Join the Conversation

 1. Avatar
 2. Avatar
 3. Avatar
 4. Avatar

5 Comments

 1. Tómas: Þá finnst mér merkilegt að það séu ekki allir að gera þetta. Öll sjúklingafélög á landinu vantar pening…

  Annars mætti efla netbankann hvað þetta varðar. Það ætti varla að vera neitt því til fyrirstöðu að hafa viðhengi með upplýsingum um málefnið fyrir þá sem vilja vita hverju er verið að safna fyrir.

 2. Ætli menn hafi verið að kveikja á þessu? Hingað til hafa bankar yfirleitt verið hliðhollir svona félögum og það hefur kostað frekar lítið að senda út seðil (50 -100 kall). Núna hafa tíma breyst og bankarnir eru harðari.

  Ég er nokkuð viss um að það eigi eftir að verða spreninging í þessu. Bankar þurfa sjálfsagt að auðvelda umhverfið og hjálpa fólki að eyða út þessum seðlum sjálft (á auðveldan og augljósan máta).

 3. Gjaldið veltur að hluta á bönkunum en þó líklega meira á RB, kröfukerfið („Kröfupotturinn“) er náttúrulega í RB. Þetta á því alltaf eftir að velta að stórum hluta á þeirra gjaldskrá myndi ég halda (sem er óskiljanlegri en biblían á frummálinu).

  En – í raun og veru getur hver sem er stofnað kröfu (jafnt hliðræna sem rafræna), síðan er hún greidd ef hún er réttmæt af móttakanda. Annars hent. Í kröfukerfinu gat aðeins stofnandi hent kröfu. Það var ákveðið vandamál.

  Þessi merking, valkrafa, og möguleiki á að fela/eyða var síðan búinn til útaf svona vandræðakröfum sem voru ekki stofnaðar beinlínis vegna kaupa á vöru og þjónustu. Persónulega vona ég að það verði farið mjög sparlega með þetta, það er alltaf álitamál að vera að senda fólki reikninga sem það hefur ekki beðið um.

  Ef það verður farið í einhverja misnotkun á þessu held ég að menn verði fljótir að herða einfaldlega reglurnar og henda frekar út þeim sem hafa fengið að komast upp með þetta (aðallega líknarfélög og einhver félagasamtök) en að láta notendur vera kolbrjálaða yfir því að heimabankinn þeirra sé að fyllast af rusli og þeir hafi borgað helminginn af því óvart.

  Mín tíu cent.

Leave a comment

Skildu eftir svar við TomasHa Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *