Uruguay (b)

Þegar mínir menn í Uruguay drógust í A-riðil, vissi ég ekki hvort ég ætti að fagna eða svekkja mig. Riðillinn virtist öflugur. Mexíkó er lið sem reikna má með að komist upp úr riðlakeppni HM. Heimalið hafa yfirleitt náð góðum árangri og þótt Frakkarnir hafi áður látið fallast á sverð sitt á stórmótum, var ekki hægt að ganga út frá því sem vísu.

Kosturinn við riðilinn var hins vegar sá að sigurlíkur máttu heita ágætar.

Nú hefur það komið í ljós. Uruguay hefur leikið betur en flest önnur lið á mótinu. Varnarleikurinn er frábær, enda fór liðið upp úr riðlakeppninni án þess að fá á sig mark. Jafnframt getur Uruguay leitt leiki, eins og sást í 3:0 sigrinum á S.Afríku á Soweto-daginn.

Nú er komið í 16-liða úrslitin, þar sem leikið verður við liðið úr 2. sæti B-riðils – líklega S.Kóreu. Mér sýnist Uruguay mun sterkara. Stefnan hlýtur að vera tekin á undanúrslitin.