Gallaðar ferilsskrár

Fór inn á vef Reykjavíkurborgar, þar sem ég vildi grafast fyrir um stjórnarsetur og nefndarstörf stjórnmálamanns nokkurs til að svala forvitninni. Þar má finna síður með ferilsskrám þeirra sem sitja eða hafa setið í borgarstjórn síðustu árin.

Því miður er enga svona síðu að finna en úr því ætti ekki að vera erfitt að bæta. Ég veit til þess að vinna við borgarfulltrúatal frá 1986 er langt komið. Það ætti ekki að vera mikið mál að koma því á vefinn, auk þess sem borgin mætti splæsa í sumarstarfsmann sem myndi pikka inn gamla borgarfulltrúatalið og jafnvel annan til að reyna að samræma uppsetninguna.

Það verður hins vegar að segja að upplýsingarnar um núverandi borgarfulltrúa eru engan veginn nógu góðar. (Og þá er ég að tala um þá fulltrúa sem setið hafa í borgarstjórn lengur en frá síðustu kosningum.)

Jújú, það er fínt að fá að vita að Björk Vilhelmsdóttir hafi verið kokkur á bát fyrir mörgum árum, að Júlíus Vífill hafi setið í stjórn Bifreiðaskoðunar fyrir tæpum tveimur áratugum og að Sóley Tómasdóttir hafi verið meðritstjóri bókarinnar „Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð“ – en allt eru þetta aukaupplýsingar.

Vísitölunotandi þessarar upplýsingasíðu hlýtur fyrst og fremst að vera að fiska eftir því hvaða störfum viðkomandi hafi gegnt á vegum Reykjavíkurborgar. Þannig myndu menn vilja vita hratt og örugglega hvort t.d. Oddný Sturludóttir eða Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir hafi setið í skipulagsráði á tilteknu árabili eða í stjórn Faxaflóahafna – svo eitthvað sé nefnt…

Kjartan Magnússon er með lista sem lítur út fyrir að vera nokkuð tæmandi. Samt er grunsamlegt að á honum er engin seta í hverfaráði tiltekin. Ég hélt að allir borgarfulltrúar hefðu meira og minna verið skikkaðir í eitthvert hverfaráðið.

Júlíus Vífill Ingvarsson virðist smkv. sinni síðu hafa gegnt einhverjum nefndarstörfum 1998-2002 og aftur frá 2006, en heilt kjörtímabil þar á milli hefur dottið út úr skránni.

Um nefndarsetur Dags Eggertssonar stendur ekki múkk, en gestir síðunnar fá þó að vita að hann var í sumarvinnu á DV árið 1993.

Þorleifur Gunnlaugsson virðist maður án fortíðar og ekki er að sjá að Jórunn Frímannsdóttir eigi nefndarformennskur að baki. Svona mætti lengi telja.

Þetta er einfaldlega ekki nógu gott. Laga, takk!