16-liða úrslit palladómar, seinni hluti (b)

Ef hægt er að finna eitthvað gegnumgangandi þema í þessari heimsmeistarakeppni, þá eru það hrakfarir „stóru“ evrópsku liðanna. Sjálfseyðingarhvötin hefur rekið hvert þeirra á fætur öðru til að fallast á sverð sín. Ekki þyrfti að koma á óvart þótt Evrópa fengi bara eitt lið í undanúrslitin. Ég læt mig reyndar dreyma um að það verði ekkert…

5. leikur, Slóvakía : Holland

En í fyrri leik morgundagsins takast á tvö Evrópulið. Hollendingar eru með fullt hús sigra og hafa verið traustir, án þess að vera neitt frábærir. Ef höfð eru í huga öll skemmtilegu hollensku landslið liðinna HM-keppna, væri það eiginlega skáldlegt óréttlæti ef þessu liði tækist að slugsast alla leið.

Slóvakarnir eru hins vegar glúrnir. Frammistaða þeirra gegn Ítölum var til hreinnar fyrirmyndar og með slíkum leik eru þeim flestir vegir færir. Hættan er sú að liðið sé mett eftir að hafa slegið heimsmeistarana úr keppni (svipað og Búlgarar 1994, sem duttu í það og gáfu skít í restina af mótinu eftir sigurinn á Þýskalandi í fjórðungsúrslitum). Líklega er það óskhyggjan sem ræður för, en ég ætla að tippa á slóvaskan sigur, jafnvel í venjulegum leiktíma.

6. leikur, Brasilía : Chile

Ég myndi þola Brasilíu að vera sigursælasta landslið í heimi og ætíð sigurstranglegasta liðið við upphaf hvers móts – ef þeir drulluðust þá til að spila sem slíkir. Naumur sigur á Norður-Kóreumönnum og markalaust jafntefli í ööömurlegum jafnteflisleik við Portúgal er ekki sigurvegarastöff.

Chile er sjarmerandi lið – miklu agressívara og hreyfanlegra en fúla Brasilíuliðið sem er mun evrópskara en nokkurt Evrópulíðið í ár. Mig langar óstjórnlega til að spá Chile sigri og eitthvað segir mér að sú geti alveg orðið raunin, en það væri óskhyggja – svo ég held mig við brasilískan sigur, 2:1 eða 3:1.

7. leikur, Paraguay : Japan

„Veikasti“ leikur 16-liða úrslitanna. Paraguay hefur blómstrað í keppninni á sama hátt og Uruguay og Chile. Einkum var frammistaðan góð á móti Slóvökum. Leikurinn gegn Nýja Sjálandi var hins vegar á sama hátt slakur og dapurt að ná ekki að skora mark.

Ég sá ekki leik Japans og Danmerkur og byggi því mat mitt á Japönunum einkum á leiknum við Kamerún og svo hálfum Hollands-leiknum. Mér sýnist þessi viðureign hafa alla burði til að vera endurtekning á leik Uruguay og Suður Kóreu, með tveimur ívið lakari liðum. Ef Paraguay nennir að halda völdum á miðjunni og leiða leikinn, þá ætti þetta ekki að vera vandamál.

8. leikur, Portúgal : Spánn

Portúgal ber ábyrgð á tveimur foxleiðinlegum 0:0 jafnteflum og 7:0 stórsigri. Það er skrítin blanda. Yfir leik Brasilíu og Portúgal rifjaðist upp fyrir mér hvers vegna mér er svona illa við portúgölsku vælukjóana.

Ég er samt viss um að þeir vinna Spánverjana – gott ef ekki í vítakeppni – bara til að bögga mig og Kjarra Guðmunds.