Svartar perlur (b)

Við sem lásum bókina eftir Jónas frá Hriflu um knattspyrnuferil Alberts Guðmundssonar vitum allt um viðurnefnið „Hvíta perlan“ sem frönsku blaðamennirnir gáfu okkar manni. Það var víst til aðgreiningar frá „Svörtu perlunni“ – Larbi Ben Barek, aðalmarkaskoraranum í Frakklandi sinnar tíðar. Sá var af norður-afrísku bergi brotinn og dökkur á hörund eins og gælunafnið gefur til kynna.

Með þessa vitneskju að vopni, höfum við unnendur Alberts og Hriflu-Jónasar alltaf getað hlegið hryssingslega þegar vísað er í leiðindagaurinn Péle sem „Svörtu perluna“. Þá verður okkur einatt að orði: „Jújú, þessi Péle var nú víst ágætur – en hann var enginn Larbi Ben Barek!“

Vandinn er hins vegar að „Svarta perlan“ er álíka fyrirsjáanlegt viðurnefni fyrir þeldökkan fótboltamann og „Rauða ljónið“ fyrir pöbb. Og Larbi Ben Barek er eiginlega bara heimsfrægur í Frakklandi og á Íslandi.

Ef farið er að rýna betur í hinar svörtu perlur kemur í ljós að á undan Ben Barek var annar og miklu frægari fótboltamaður sem bar þetta heiti.

Jose Andrade var einhver besti knattspyrnumaður þriðja áratugarins. Hann var frá Uruguay, en afi hans var brasilískur strokuþræll sem flúið hafði þangið um miðja nítjándu öldina. Uruguay hefur löngum þótt framsækið ríki (afnámu þrælahald snemma, kosningaréttur kvenna o.þ.h.) og svartir knattspyrnumenn þóttu gjaldgengir mun fyrr þar en annars staðar. Þannig tefldi landslið Uruguay fram svörtum leikmönnum svo snemma sem 1916 í fyrstu Suður-Ameríkukeppninni.

Andrade hóf að leika með landsliðinu árið 1923. Hann varð Suður-Ameríkumeistari það ár og svo aftur 1924 og 1926. Hann var í liði Uruguay sem varð Ólympíumeistari 1924 og 1928. Og undir lok alþjóðlega ferils síns hampaði hann heimsmeistaratitlinum 1930.

Fyrir HM 1994 setti France Football saman þennan lista yfir hundrað bestu leikmennina í sögu HM 1930-90. Þar var Andrade í tíunda sæti – langefstur þeirra manna sem kepptu fyrir seinni heimsstyrjöldina.

Með þennan feril í huga, þá virka nú eiginlega þeir Albert og Ben Barek báðir hálf kjánalegir…