Góðan daginn, þetta er wonderful garður…

Fyrir um áratug byrjaði Nickelodeon að framleiða teinkimyndaþættina um Dóru ferðalang. Allir foreldrar ungra barna vita að Dóru-þættirnir svínvirka, þótt vissulega sé ekki gaman að fá suma lagstúfana á heilann. Grísirnir elska þetta sjónvarpsefni og geta horft undir drep.

Dóra er dökk yfirlitum og án þess að það komi beinlínis fram, má ætla að hún sé ættuð frá Rómönsku Ameríku. (Þannig bárust um daginn fréttir af bandarískum mannréttindasamtökum sem hafa gert Dóru að einkennistákni baráttu sinnar undir slagorðinu „Dóra er ólöglegur innflytjandi“. Og vei þeim stjórnmálamannai sem myndi reka Dóru úr landi…)

Dóra á í það minnsta ýmsa vini sem hafa suðrænt litaraft og tala misgóða ensku. Sumir þylja bara einfaldar setningar á spænsku. Aðrir tala ensku, en skjóta öðru hvoru inn einu og einu spænsku orði.

Svona tungumálausli er ekki óþekktur í barnaefni. Þannig var eitt kvikindið af Teletöbbýunum látið tala lýtalausa kantónsku í upphaflegu þáttunum frá BBC. Væntanlega hefur einhver hjörð pedagóka, þroskaþjálfa og barnasálfræðinga lagt blessun sína yfir þessa tilhögun eins og allt annað í þáttunum. Og örugglega eru til einhverjar kenningar um að þetta auki skilning barna á eðli og tilvist annarra tungumála.

Við talsetningu þessara þátta yfir á íslensku, hefur spænskunni verið skipt út fyrir ensku. Aukapersónurnar sletta því ensku eins og í akkorði. Það er afar kyndugt og hvimleitt á að hlýða.

Dóruþættirnir eru reyndar ekki verstir með þetta. Verri eru þættir sem augljóslega eru að leita í þeirra smiðju, s.s. einn sem er augljós tilraun til að blanda saman Dóru og Bubba byggi – með aðalpersónu sem er völundur í höndunum og á mikið safn talandi verkfæra og vina sem skipta yfir í enskuna lon og don.

Afleiðingin eru samtalsslitrur eins og sjá má í titli þessarar færslu. Upp á þetta er börnum boðið í sjónvarpinu í hverri einustu viku – krökkunum til afþreyingar en mér til skapraunar.

Ég velti því fyrir mér hvort kennslufræðin á bak við það að láta persónur í bandarísku barnaefni sletta spænsku yfirfærist sjálfkrafa yfir á að sletta ensku í íslenskum barnatíma? Eru krakkar á jafnlitlu málsvæði og því íslenska ekki sífellt með ensku í eyrunum? Er þeim þá sérstakur greiði gerður með hrognamæltum teiknimyndapersónum til viðbótar við allt hitt? – Hvað segja kennarar við þessu?

Join the Conversation

17 Comments

 1. Mæltu manna heilastur! Þetta er afleitt efni og ég þori að éta heila hattabúð upp á að þetta er ekki til þess fallið að auka tungumálafærni eða -næmi lítilla barna. Öðru nær! Eins gott og það getur verið og ætti í raun að gera meira af því að kenna litlum börnum erlend tungumál (það er fáránlegt að erlend tungumálakennsla skuli ekki hefjast strax í 1. eða 2. bekk grunnskóla), þá ruglar svona grautur bara börnin í Rímíni og þau fara að sletta til hægri vinstri án þess að hafa hugmynd um það.

 2. Er það semsagt tiltölulega meinlaus og ágætlega skiljanleg fjölmenningarstefna að skjóta spænskum orðum í enskt barnaefni, en pirrandi og gagnslaus undirlægjuháttur að skjóta enskum orðum í íslensku barnaefni?

 3. Þetta er oftúlkun Sigurður. Ég er bara að láta mér detta í hug að það kunni að vera dálítill munur á því að skjóta erlendum orðum inn í barnaefni á málsvæði sem er svo stórt og sterkt að hægt er að komast í gegnum hálft lífið án þess að heyra önnur tungumál?

 4. Manni meistari (Handy Manny) er á frummálinu (enska með spænskum innískotum) prýðisþáttur sem er ætlað greinilega sem fyrirmynd fyrir spænska Bandaríkjamenn og til að viðhalda tengslum þeirra við spænskuna, sem og að ná til þeirra sem ekki tala spænsku og koma litlutá þeirra í málheim hinna spænsku. Spænska vex hratt í Ameríkunni og einhverjar spár segja að hún verði stærri en enska þar eftir nokkra áratugi. Því er þessi tvítyngdi þáttur með puttann á púlsinum þar og ég get fátt gert annað en hrósað honum.

  Á íslensku kemur þetta hrikalega illa út með enskum frösum sem krakkar skilja ekki og þurfa ekki að kunna þriggja ára á eintyngdu málsvæði, einkum þar sem markhópurinn eru yngstu börnin sem eru enn að reyna að læra íslensku.

  Eini markhópurinn sem ég sé í fljótu bragði að fái ekki kjánahroll eru foreldrar tvítyngdra íslensk/enskra barna. Hin tvítyngdu börnin (íslenska og annað mál) eru þarna jafn týnd og þau íslensku.

  Sumsé, á málsvæði þar sem bæði málin eru í notkun (Ameríka) sé ég ekkert að þessu, en á eintyngdu málsvæði (Ísland) er þetta að koma hrikalega asnalega út. Tvítyngdir þættir fyrir tíu ára væru hins vegar allt annað mál.

 5. Hver er skaðinn? Út frá því sem ég hef lært í mínu rétt ókláraða leikskólakennaranámi get ég ekki séð annað en að börnin græði á þessu. Geta barna til að tileinka sér tungumál er virkilega mikil og ef eitthvað er þá ýtum við ekki nóg undir hana í leik- og grunnskólum, þó að vissulega séu nokkrir skólar farnir að kenna ensku strax í fyrsta bekk.

  Eru menn að hafa áhyggjur af stöðu tungunnar?

 6. Ég verð að viðurkenna að mér finnst rökin hér fyrir einhverjum eðlismun lítt haldbær. Ef þið til dæmis ferðist í Arizona sjáið þið mikið af upplýsingum á spænsku, og allar almannatilkynningar eru til dæmis á báðum tungumálum. Þetta sér maður líka víða í Baltimore, hvar ég bý. Hér tala margir spænsku, um það bil 1/6 Bandaríkjamanna talar spænsku sem fyrsta eða annað tungumál. Á Íslandi má líka segja að við séum „de facto“ tvítyngd, því að allir tala ensku frá unga aldri vegna þeirra miklu menningaráhrifa sem við verðum fyrir frá enskumælandi löndum (mér myndi seint detta í hug að þakka enskukennslu í skólum fyrir þá kunnáttu). Ég hreinlega sé lítinn eðlismun á enskum áhrifum á íslensku og spænskum á ensku.

  Mig grunar að ef að þið heyrðuð hvítt non-hispanic bandarískt foreldri hneykslast á spænskuskotnu máli í ensku barnaefni, þá mynduð þið velta fyrir ykkur hvers lags menningarhroki byggi eiginlega þar að baki. Hins vegar sé það einhvern veginn allt annað mál að skjóta ensku í íslensku barnaefni. En samt er enska opinbert mál á mörgum svæðum í Bandaríkjunum, líkt og íslenska á Íslandi (enska er ekki opinbert, lögbundið tungumál á alríkisvettvangi, en er „de facto“ opinbert á langflestum svæðum og er lögbundið sem aðaltungumál á sumum þeirra, á meðan enn önnur svæði lögbinda tvö tungumál sem opinber).

  Aldurspælingin og hættan á að „rugla“ börn er einkennileg. Samkvæmt henni ættu til dæmis tvítyngdir foreldrar ekki að byrja að tala við barnið á tungumáli #2 fyrr en einhvern tíma seint og síðarmeir. Allar rannsóknir á tvítyngdum börnum mæla gegn því, og auk þess eru börn því næmari fyrir tungumálanámi því yngri sem þau eru. Vissulega er tímabil í málþroska tvítyngdra barna þar sem þau rugla saman tungumálum í umhverfi sínu, en það tímabil varir ekki lengi.

 7. Það að margir geti skilið og beitt fyrir sig erlendu tungumáli merkir ekki að við séum „de facto“ tvítyngd hér á Íslandi. Ég þekki fjöldan allan af sæmilega gáfuðu og menntuðu fólki sem skilur ekki ensku í sjónvarpi og getur ekki lesið sér á ensku til gamans.
  Þó að það sé kannski ekki stórhættulegt að sletta ensku í sjónvarpsefni fyrir börn á máltökuskeiði, þá efast ég um að þeim sé með því nokkur greiði gerður; sérstaklega ef haft er í huga hvað þetta ergir foreldrana.

 8. Þetta hefur ekki pirrað mig. Ensk-spænsku Dóruþættirnir voru í miklu uppáhaldi hjá miðdóttur minni (við bjuggum þá í USA) og sú yngsta hefur verið hrifin af ísl-ensku útgáfunni hérlendis. Það sem hefur hins vegar pirrað mig er að ekki skuli vera hægt að fá leikara sem eru sæmilega mælandi á ensku til að tala inn á íslensku útgáfuna. Sumar „enskumælandi“ persónurnar hafa svo sterkan íslenskan framburð þegar þær bera fram ensku orðin að þau eru vart þekkjanleg enskumælandi fólki. Það hljóta að vera til leikarar á Íslandi sem geta borið fram ensku almennilega.

  Það hefur ekki verið mín reynsla (eftir að hafa átt tvö tvítyngd börn og eitt eintyngt) að það sé sérstakt vandamál að börn rugli saman tungumálum eða viti ekki hvaða máli orðin tilheyra.

 9. Ég orðaði þetta vitlaust. Rannsóknir benda til að tvítyngd börn nota stundum orð úr báðum tungumálum í sömu setningu á meðan þau eru að læra þau, en það er ekki til marks um að þau viti ekki hvaða máli orðin tilheyra.

 10. Þannig að ergelsi foreldra er næg ástæða til að blanda ekki tungumálum, hvort sem það er í Bandaríkjunum eða á Íslandi? Þá erum við alla vega samkvæm sjálfum okkur. En þá má spyrja á móti: Er ergelsi foreldra líka gild ástæða fyrir að kenna ekki til dæmis þróunarkenninguna í skólum?

 11. Ef amerísku þættirnir eru á ensku og spænsku, væri ekki rökrétt að þýðingarnar væru á íslensku og pólsku?

 12. Dóra er í hávegum höfð á mínu heimili sem og frændi hennar Diego sem kemur stundum í gestahlutverki hjá Dóru en er líka með sína eigin þáttaröð. Hér í Mexíkó tala þau spænsku og sletta ensku inn á milli. Ég hafði ekki hugmynd um að þetta efni væri sýnt á Íslandi enda var maður hér áður fyrr ekki mikið inn í barnaefninu.

  Þegar ég sá þetta fyrst fannst mér þetta vera argasta rugl að blanda saman tungumálum á þennan hátt en það hefur komið á daginn að þetta virkar. Eldri strákurinn (3 ára) kann nú að telja á ensku upp að tíu og lærði það af sjónvarpinu og hefur líka lært nokkur orð og orðasambönd á ensku af þeim frændsystkinum.

  Enn magnaðri þættir frá Nickelodeon eru þeir um stelpuna Kai-Lan sem kennir börnum mandarín. Eldri strákurinn hefur einnig lært nokkra frasa af henni. Um daginn fórum við í bakarí rekið af Kínverjum og grislingurinn sagði halló á mandarín við afgreiðslufólkið eftir að hann tók eftir því hvernig þau litu út. Kínverjarnir urðu ein augu við þetta og spurðu hvar í ósköpunum hann hafði lært þetta.

  Fyrir mér eru þessir síðarnefndu þættir enn eitt merkið um vaxandi áhrif Kína á heimsvísu. Þættir fyrir börn sem eru að hluta til á mandarín hefðu þótt fáránlegir fyrir ekki svo mörgum árum.

 13. Krakkarnir mínir eru of gamlir til að hafa náð Dóruþáttunum. Sá yngsti, 10 ára, er hins vegar nánast altalandi á ensku og er búinn að vera lengi, aðallega vegna tölvuleikja og þess að hann horfir á þætti á netinu, já reyndar vill ekkert af mínum krökkum horfa á íslenska talsetningu á teiknimyndum sem við kaupum.

  Hann og frændi hans og líka tveir bekkjarfélagar (nýbúar, báðir frá Filippseyjum) tala nánast eingöngu ensku saman.

  Þetta heyrist því miður á máli stráksa, hann talar stundum mjög enskuskotna íslensku 🙁

 14. Verst við hinn handlagna Manny Garcia og þátt hans, er að allt of sjaldan er skýrt út fyrir börnunum hvað verið er að segja þegar persónurnar sletta ensku. Hefði ég haldið að það væri forsenda þess að þau gætu lært af honum.

  Miðað við lýsingar Lárusar á Kai-Lan er þar um mun betra kennslu-tæki að ræða. Manny og félagar hans fræða ekki en rugla fremur, sbr. fyrirsögn þessa pistils.

 15. Synir mínir eru tvítyngdir á ensku og íslensku og hafa horft á Dóru bæði á íslensku (með enskum innskotum) og ensku (með spænskum innskotum). Þeir hafa gaman af þáttunum og taka varla eftir því hvort þeir eru á íslensku eða ensku. Varðandi notagildi þess að setja enskuna inn í íslensku útgáfuna þá er ég algjörlega ósammála Stefáni. Ég held að það sé börnum gott að alast upp við að líta á það sem sjálfsagt að mörg tungumál séu notuð. Synir mínir geta t.d. talið upp á 10 á spænsku (áhrif frá ensku útgáfunni) og reyndar geta þeir líka talið upp á 10 á frönsku þar sem þeir taka (sá eldri tók) frönsku einu sinni í viku á leikskólanum. Er lítið mál fyrir þá að bæta við sig tungumálum, en það hefur líklega meira með tvítyngið að gera en annað. En til að svona þættir verði markvissir á að nota enskumælandi fólk við talsetninguna, ekki segja enskuna með sterkum íslenskum hreim eins og einhver benti á. Það er það eina sem ég set útá við Dóru þættina.

 16. …ég bendi nú á að í færslunni er ég frekar að krítísera helv. smiðinn.

  Í Dóru-þáttunum er unnið með útlendu orðin og þau útskýrð. Smiðurinn er bara í að sletta orðum.

 17. Hérna í frönskumælandi Kanada talar Dóra frönsku, en sletturnar eru á ensku. Ég er samt forvitinn hvernig þessu er hagað á norðurlöndunum, slettir Dóra þar á ensku líka?

Leave a comment

Skildu eftir svar við Guðjón Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *