Svalur og ópíumbaróninn

Sendingin af þýsku Svals og Vals-bókunum um daginn heldur áfram að vera gleðigjafi á hér Mánagötunni. Kvöldlesning síðustu nátta hefur svo sannarlega ekki valdið vonbrigðum. Það eru tvær síðustu bækur Fourniers, um útistöður Svals og Vals við einræðisherrann Kodo. (Á frummálinu: Kodo le tyran & Des haricots partout.)

Fournier brýtur blað í sögu bókaflokksins með því að segja sögu í tveimur bindum (það fyrra endar á æsilegan hátt, þar sem Valur er í bráðum lífsháska.)

Sagan gerist í ímynduðu ríki á landamærum Burma, Bangladesh og Indlands – þótt sennilega sé herforingjastjórnin í Burma hin raunverulega fyrirmynd. Svalur og Valur hyggjast komast inn í hið dulúðuga ríki til að skrifa frétt. Þeir verða viðskila á leiðinni og fyrir röð tilviljana er Valur tekinn í misgripum fyrir sendifulltrúa evrópsku mafíunnar. Í ljós kemr að hershöfðinginn Kodo, einræðisherra landsins, heldur þjóð sinni í heljargreipum og fjármagnar her sinn með stórfelldri ópíumframleiðslu.

Svalur kynnist uppreisnarmönnum í landinu og saman ræna þeir mafíósanum/Val. Þeir félagarnir bjóðast til að upplýsa umheiminn um glæpi hershöfðingjans. Uppreisnarmenn svara því til að það sé ekki nóg – ekki dugi að fá útlenda íhlutun og skipta bara einum leppnum út fyrir annan. Þeir vilja geta séð sér farborða og byggja upp stöndugt samfélag.

Svalur er því sendur til Sveppagreifans sem heldur á fund félaga sinna frá WHO (jebb, plottið verður ansi félagslega meðvitað þegar hér er komið sögu). Saman tekst þeim svo að eitra fyrir valmúauppskeru hershöfðingjans og fá sendar þreskivélar og önnur landbúnaðartæki til að leggja grunn að öflugri baunaræktun.

Áhugi Fourniers á ýmsum hagsmunamálum þriðja heimsins var áberandi á seinni hluta ferils hans sem höfundur Svals og Vals, en sjaldan þó eins og í þessum bókum. Kodo er mjög gott illmenni og plottið gengur betur upp en í mörgum bóka Fourniers. Ef eitthvað er, þá er það í það jarðbundnasta. Teikningarnar eru fínar og greinilegt að Fournier karlinn hefur verið að þróa stíl sinn alveg framundir það síðasta.

Fínar bækur og synd að þær hafi ekki komið út á íslensku.