Dómaramistökin (b)

Davíð Þór Jónsson skrifar Bakþanka í Fréttablaðið í dag. Þeir ganga í stuttu máli út á að dómararnir hafi eyðilagt HM – svo mjög að almenningur sé í stórum stíl búið að snúa baki við keppninni. Þetta sé verst dæmda heimsmeistarakeppni sögunnar.

Þessi afstaða Davíðs kemur mér talsvert á óvart. Sem forfallinn fótboltaáhugamaður hef ég legið yfir stóru fótboltamótunum (og raunar nokkurn veginn hvaða fótboltamótum sem er) frá því að ég man eftir mér. Mín tilfinning er hins vegar sú að dómarar hafi aldrei verið jafn góðir. Dómarar dagsins í dag láta þá sem stýrðu flautu fyrir 20 eða 25 árum líta út eins og hlægilega viðvaðninga.

Auðvitað hefur hraði íþróttarinnar aukist verulega og mögulegum mistökum í samræmi við það – en engu að síður er mín tilfinning akkúratt þveröfug við upplifum Davíðs: ég myndi segja að á síðustu 20 árum (ég ætla ekki að þykjast vera sérstaklega dómbær um mót fyrir 1990) hafi dómarar aldrei haft jafnlítil áhrif til hins verra á úrslit leikja.

En segjum sem svo að ég hafi rétt fyrir mér en Davíð rangt – þá stæði eftir spurningin: hvers vegna upplifir Davíð þá allt þetta hróplega óréttlæti, svindl og klúður í fótboltanum núna? Ég er með kenningu um það.

Fyrir síðustu stórmót í fótboltanum höfum við sem aldri fyrr getað horft á spjallþætti þar sem reynt er að greina það sem gerist inni á vellinum. Á sama tíma verður sjónvarps- og myndatökutæknin stöðugt betri. Þetta þýðir að við getum spólað, skoðað fryst og stækkað hvert einasta atvik sem aflaga fer – og hersing launaðra fótboltaskýrenda þarf að drepa tímann með því að analýsera í smáatriðum hvern einasta rangstöðudóm eða tæklingu sem hefði mátt gefa spjald á.

Ég hallast sem sagt að því að rangir eða hæpnir úrskurðir dómara séu í dag miklu færri en t.a.m. fyrir tuttugu árum – en að orkan og tíminn sem fer í að ræða hvern rangan dóm sé miklu meiri í dag. Fyrir vikið kann ýmsum að finnast að dómaramistökin séu að eyðileggja sportið sem aldrei fyrr.

Join the Conversation

5 Comments

  1. Algjörlega sammála. Mér þykja dómararnir hafa verið frábærir. Fyrir bragðið erum við að mestu lausir við fiskanir og dýfur. Ég held að menn horfi á einstök tilfelli (England) og dæmi alla keppnina eftir því.
    Eins og þú segir þá er sjónvarpstæknin orðin svo mögnuð, instant replay, í slow motion, að við sem heima sitjum sjáum betur en dómarinn hvað er að ske. Ég sé fyrir mér að annaðhvort verður að nýta tæknina í dómgæsluna eða að fyrirliðar og dómari handsali drengskaparheit fyrir leikinn og undirgangist að vera sáttir við ákvarðanir dómarans. Marklínu- og rangstöðumyndavélar verði ekki leyfðar.
    Viljum við róbótadómgæslu, hvar innan nokkurra ára verður hægt að mæla togkraft í peysutogi, fyrir utan allt annað, eða að þetta verði áfram mannlegur leikur með mistökum og álitaefnum?

  2. Jebb, vel dæmt meira og minna. Því miður hafa mistökin fáu verið áberandi og afdrifarík.

    En dýfur eru óþolandi. Og að umgangast reglurnar á þann hátt sem gerðist í lokin á Uru-Ghana leiknum er sömuleiðis ömurlegt (reglur á ekki að brjóta bara þó maður geti reiknað út að það að brjóta þær verði aldrei verra en að hlýða þeim).

    Það mun eitthvað verða breytt í dómgæslu áður en næsta HM verður haldið.

Leave a comment

Skildu eftir svar við Toggi Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *