Spámaðurinn mikli

Eins og dyggir lesendur þessarar síðu ættu að vita, er ég mikill og nánast óbrigðull spámaður. Til að árétta það ætla ég að setja fram djarfan spádóm:

Í tilefni af framlagningu álagningarskránna munu ungir Sjálfstæðismenn efna til einhverra táknrænna mótmæla, sem fjórir munu mæta á. Þeir munu líklega hóta því að stela skránum eða hindra fólk í að blaða í þeim. Þeir munu hins vegar ekki nenna því lengur en í svona þrjú kortér, klukkutíma og fara þá heim.

Þetta mun þó tryggja þeim a.m.k. eitt sjónvarpsviðtal, tvö útvarpsviðtöl og smástúf í Mogganum.

Já – ég veit að þetta er djarfur spádómur, en ég er jú maður hinna djörfu spádóma.

* * *

Og meðan ég man – þar sem ég er hvorki Pressu- né Eyju-bloggari, mun ég líklega ekki rata inn á neinn lista yfir tekjur celeb-bloggara. Það er því best að upplýsa það hérna að ég borga 1,4 milljónir í skatt. Þið verðið sjálf að reikna út hvað það gerir á mánuði.