Lyon og Geiri El. (b)

Uppgangur fótboltaliðsins Olympique Lyonnais er eitt magnaðasta fyrirbæri Evrópufótboltans á síðustu áratugum. Franskur miðlungsklúbbur er á mettíma orðið eitt af stærstu félögum Evrópu – fyrst og fremst með því að vera klókari en aðrir á leikmannamarkaði: kaupa efnilega leikmenn fyrir lítið fé og selja þá aftur fyrir fúlgur.

Sigurganga Lyon skýrist ekki af einhverjum ofursnjöllum knattspyrnustjóra sem ríkir sem einvaldur. Þvert á móti má segja að gagnstæða eigi við. Lyon skiptir ört um stjóra og völd þeirra eru takmörkuð. Eigendur liðsins líta nefnilega svo á að knattspyrnustjórar séu millistjórnendur til skamms tíma. Eðli þeirra er að hugsa um skammtímaávinning. Þeir eru dæmdir á úrslitum næstu 4-5 leikja og hafa lítinn hvata til að horfa lengra en hálft til eitt ár fram í tímann.

Fyrir vikið hafa stjórarnir hjá Lyon lítið um það að segja hvaða leikmenn eru keyptir til liðsins eða seldir frá því. Þær ákvarðanir eru í höndum sérstaks ráðs, þar sem knattspyrnustjórinn er bara einn nokkurra fulltrúa.

Þetta þykir vond latína á flestum bæjum, þar sem menn hafa ofurtrú á hinum alvalda knattspyrnustjóra sem verði að fá fullt sjálfstæði gagnvart stjórninni til að móta liðið eftir eigin höfði. Í samræmi við þessa heimsmynd, þykir fátt verra en stjórnir og eigendur sem reyna að blanda sér í það hvaða leikmenn séu á launaskrá liðanna sinna og fátt þykir eðlilegra en að knattspyrnustjórar segi starfi sínu lausu ef reynt er að binda hendur þeirra.

Dæmið frá Lyon ætti að gefa mönnum tilefni til að draga í efa þessi viðteknu sannindi um að best sé að hafa einvald í stjórastólnum. Knattspyrnufélög eru fyrirtæki og kaup á leikmönnum eru stærstu fjárfestingar þeirra fyrirtækja. Hversu rökrétt er þá að láta ákvörðunina um þessar fjárfestingar að öllu leyti í hendur stjórnanda sem hugsar fyrst og fremst um hvað gerast muni næsta mánuðinn?

Þegar ég las um skipulag hlutanna hjá Lyon, rifjuðust upp frásagnir af því hvernig staðið hefði verið að málum hjá Fram í stjóratíð Ásgeirs heitins Elíassonar. Sagan segir að Ásgeir hafi haft þá sérstöðu meðal íslenskra knattspyrnuþjálfara að hann lét sig litlu varða hvaða leikmenn væru fengnir til liðs við félagið. Menn í stjórn knattspyrnudeildarinnar sáu alfarið um þau mál, Ásgeir treysti dómgreind þeirra og lét sér vel líka. Sagt er að á öllum sínum þjálfaraferli hjá Fram, hafi Ásgeir aðeins farið fram á að fá til sín einn leikmann – Nígeríumann sem reyndist síðan kötturinn í sekknum.

Þessi saga um áhugaleysi og jafnvel vanhæfni Geira þegar kom að því að semja við leikmenn var alltaf sögð eins og til marks um skemmtilega sérvisku hans. En kannski var þetta alls enginn veikleiki, heldur styrkur? Var það ef til vill hluti af galdrinum sem skóp gullaldarlið Fram á níunda áratugnum að þjálfaranum var að mestu eða öllu leyti haldið utan við leikmannasamningana?