Brunavarnir

Baldur McQueen er klókur bloggari. Hann skrifar áhugaverða færslu um brunavarnir og muninn á Íslendingum og Bretum.

Kveikjan að skrifum Baldurs er úttektin þar sem Hvalfjarðargöng fengu falleinkunn. (Sú skýrsla held ég reyndar að sýni ekki fram á mikið annað en þá staðreynd að Hvalfjarðargöng voru grafin áður en alþjóðlegir öryggisstaðlar voru snarhertir eftir alvarleg gangaslys í byrjun þessarar aldar.)

Punkturinn með færslu Baldurs er á þá leið að brunavarnir geti verið í ökkla eða eyra. Íslendingar sinni þessum málum ekki rassgat, en Bretar gangi líklega fulllangt og meðalhófið væri best. Þeir sem hafa búið í Bretlandi geta væntanlega flestir tekið undir gagnrýnina á brunaæfingafarganið sem þar tröllríður.

En standa Íslendingar sig í raun illa í brunavörnum? Er fjöldi brunaæfinga og gerð öryggisskýrslna endilega rétti mælikvarðinn á það?

Besti mælikvarðinn til að svara þessari spurningu er væntanlega tölfræðin yfir dauðaslys af völdum bruna. Þar leyfi ég mér að fullyrða að Ísland standi nokkuð vel.  Banaslys í eldsvoðum eru vissulega nokkur á ári hverju. Þau eru hins vegar langflest í heimahúsum, einkum í gömlu og illa förnu húsnæði. Þá hafa banaslys vegna eldsvoða á sjó verið nokkur á liðnum árum. En eldsvoðar í opinberum byggingum, s.s. heilbrigðisstofnunum, skólum o.þ.h. hafa blessunarlega ekki kostað mörg mannslíf.

Án þess að hafa nauðsynleg tölfræðigögn við höndina, leyfi ég mér að fullyrða að dauðsföll vegna bruna í opinberum stofnunum, að teknu tilliti til höfðatölu, séu fleiri í Bretlandi en á Íslandi – þrátt fyrir þessa ofgnótt æfinga og ráðstafana sem Baldur lýsir. Ástæðan er sú að að þótt sýnilegu varnirnar séu sterkari í Bretlandi, þá eru ósýnilegu varnirnar betri hér heima.

Í fyrsta lagi eru íslensk hús, einkum þau sem yngri eru, gerð úr járnbentri steinsteypu. Það eitt og sér dregur úr eldhættu. Þá er öll gerð brunahólfa einfaldari og eykur öryggi. Í öðru lagi er rafmagnseftirlit gott á Íslandi, en raflagnir eru helsta kveikja eldsvoða (að brennuvörgum frátöldum). Í þriðja lagi er húsakostur Íslendinga frekar ungur og heyrir því undir yngri og strangari byggingarreglugerðir, m.a. varðandi frágang útganga og annars slíks en vænta má í Bretlandi. Og svo mætti lengi telja.

Mín tilfinning er sú að þótt sýnilegu brunavarnirnar séu veigameiri í Bretlandi en á Íslandi, skipti ósýnilegu brunavarnirnar meira máli og öryggi okkar sé því þrátt fyrir allt meira.