Brunavarnir

Baldur McQueen er klókur bloggari. Hann skrifar áhugaverða færslu um brunavarnir og muninn á Íslendingum og Bretum.

Kveikjan að skrifum Baldurs er úttektin þar sem Hvalfjarðargöng fengu falleinkunn. (Sú skýrsla held ég reyndar að sýni ekki fram á mikið annað en þá staðreynd að Hvalfjarðargöng voru grafin áður en alþjóðlegir öryggisstaðlar voru snarhertir eftir alvarleg gangaslys í byrjun þessarar aldar.)

Punkturinn með færslu Baldurs er á þá leið að brunavarnir geti verið í ökkla eða eyra. Íslendingar sinni þessum málum ekki rassgat, en Bretar gangi líklega fulllangt og meðalhófið væri best. Þeir sem hafa búið í Bretlandi geta væntanlega flestir tekið undir gagnrýnina á brunaæfingafarganið sem þar tröllríður.

En standa Íslendingar sig í raun illa í brunavörnum? Er fjöldi brunaæfinga og gerð öryggisskýrslna endilega rétti mælikvarðinn á það?

Besti mælikvarðinn til að svara þessari spurningu er væntanlega tölfræðin yfir dauðaslys af völdum bruna. Þar leyfi ég mér að fullyrða að Ísland standi nokkuð vel.  Banaslys í eldsvoðum eru vissulega nokkur á ári hverju. Þau eru hins vegar langflest í heimahúsum, einkum í gömlu og illa förnu húsnæði. Þá hafa banaslys vegna eldsvoða á sjó verið nokkur á liðnum árum. En eldsvoðar í opinberum byggingum, s.s. heilbrigðisstofnunum, skólum o.þ.h. hafa blessunarlega ekki kostað mörg mannslíf.

Án þess að hafa nauðsynleg tölfræðigögn við höndina, leyfi ég mér að fullyrða að dauðsföll vegna bruna í opinberum stofnunum, að teknu tilliti til höfðatölu, séu fleiri í Bretlandi en á Íslandi – þrátt fyrir þessa ofgnótt æfinga og ráðstafana sem Baldur lýsir. Ástæðan er sú að að þótt sýnilegu varnirnar séu sterkari í Bretlandi, þá eru ósýnilegu varnirnar betri hér heima.

Í fyrsta lagi eru íslensk hús, einkum þau sem yngri eru, gerð úr járnbentri steinsteypu. Það eitt og sér dregur úr eldhættu. Þá er öll gerð brunahólfa einfaldari og eykur öryggi. Í öðru lagi er rafmagnseftirlit gott á Íslandi, en raflagnir eru helsta kveikja eldsvoða (að brennuvörgum frátöldum). Í þriðja lagi er húsakostur Íslendinga frekar ungur og heyrir því undir yngri og strangari byggingarreglugerðir, m.a. varðandi frágang útganga og annars slíks en vænta má í Bretlandi. Og svo mætti lengi telja.

Mín tilfinning er sú að þótt sýnilegu brunavarnirnar séu veigameiri í Bretlandi en á Íslandi, skipti ósýnilegu brunavarnirnar meira máli og öryggi okkar sé því þrátt fyrir allt meira.

Join the Conversation

7 Comments

  1. Og svo blessuð hitaveitan (jarðvarmaveitan), það finnst líkast til ekki óeldfimari upphitun mannabústaða.

  2. Snorri kemur með sterkan punkt. En mig langar hins vegar að mótmæla því að opinbert eldvarnaeftirlit á Íslandi sé eitthvað sérstaklega mikið lausara í reipunum en t.d. í Bretlandi. Það er e.t.v minna um brunaæfingar hér en ætti að vera en þegar kemur að reglugerðum varðandi bæði nýbyggingar og eldri byggingar þá erum við nokkurn veginn á pari við þær þjóðir sem við miðum okkur við.

  3. Ég skil svo sem breta með sínar brunavarnir. Hve oft hefur London brunnið? Wikipedia segir að þrír stórbrunar hafi átt sér þar stað, þó enginn stærri en 1666, þegar nærri 14.000 heimili brunnu. Aðrir stórir brunar hafa átt sér stað í Bretlandi – svo kannski ekki nema von að þeir taki fast á þessum málum.

    Reykjavík – Ísland – á enga slíka stórbruna í sinni sögu – svo ég muni eftir – en það má svo sem vel vera. Kannski er bara okkar viðkvæði „shit happens“, þar sem önnur og stærri öfl hafa ráðið hér? Hver veit…

  4. Stundum eru rólegheit Íslendinga yfir eldvörnum ekki alveg í lagi. Til dæmis man ég ekki eftir einni brunaæfingu í MR, þrátt fyrir að minnsta kosti ein byggingin sé alger púðurtunna. Svo voru víst neyðarútgangur og stigi í Casa Christi sem ég heyrði einungis af í framhjáhlaupi hjá kennara nokkru eftir að hafa sótt tíma í heilt skólaár í þeirri byggingu.

  5. Það virðist vera nokkuð dæmigert í iðnríkjum að um 10 dauðsföll verði á ári á milljón íbúa vegna bruna. Það ættu þá að vera um þrjú á ári á Íslandi. Árið 2006 var 491 slíkt dauðsföll í breska konungdæminu og hafði þá fækkað nokkuð hratt frá árunum á undan (1999 voru 623, 2000 voru 613). Ég fann ekki nýrri tölur.

  6. Samkvæmt heimild frá 2001 voru 5,5 banaslys vegna bruna á milljón íbúa á ári á Íslandi. Það er merkjanlega betra en á Bretlandi, í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum. Mér sýnist því Stebbi hafi neglt þetta.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *