Að sýna puttann

Famelían á Mánagötunni er komin aftur heim eftir tæplega þriggja vikna ferðalag um Ísland (vika á Illugastöðum, langt stopp í Neskaupstað og smástopp í Suðursveitinni á heimleiðinni). Skömmu eftir komuna til Norðfjarðar fórum við í kaffi til vina og fljótlega snerum við okkur að þjóðaríþrótt Íslendinga: að hæðast að nærsveitungum.

Eskfirðingar eru hinn augljósi skotspónn Norðfirðinga og það var af nógu að taka. Hálfur Eskifjarðarbær var með í maganum, líklega eftir að e-r hafnarstarfsmaðurinn hafði ákveðið að tengja kjölsvínið á e-m togaranum við næsta brunahana með haugsugu og ýta á play…

Þetta kallaði augljóslega á marga ódýra og ósmekklega brandara um liðið hinu meginn við gatið og þá áráttuhegðun þess að kunna ekki muninn á „inn“ og „út“ á venjulegum rofum (sbr. klórgasmálið í sundlauginni um árið).

Nema hvað, meðan á þessari kerskni allri stóð, sigldi skip inn fjörðinn. Það var aðaltogari Eskfirðinga, sem tók strikið í átt að Norðfjarðarhöfn. Þetta vakti athygli okkar, enda sáum við ekki hvaða erindi Aðalsteinn Jónsson ætti í þennan fjörð. Líklega hefur hálfur bærinn hugsað það sama og legið á gægjum. (Það gerist ekki mikið í litlum sjávarplássum.)

Togarinn sigldi nánast inn að hafnarkjaftinum, en sneri þar við og stýrði ákveðið til móts við miðbæinn í Neskaupstað og staðnæmdist rétt fyrir utan gömlu bryggjuna. Þar byrjaði hann að dæla og út fyrir borðstokkinn stóð blóðlituð spýjan. Á svipstundu breyttist fjörðurinn í senu úr Fuglunum eftir Hitchcock. Á einhvern óskiljanlegan hátt birtust mörghundruð mávar – eins og úr lausu lofti (enda komu þeir úr lausu lofti).

Þegar blóðflekkurinn var orðinn dálaglegur og fuglagargið eflaust farið að æra fólk í húsunum næst bakkanum, tók togarinn af stað og stímdi út fjörðinn.

Líklega hafa einhverjir Norðfirðingar verið að hafa eftir svipaða brandara og við landkrabbarnir – nema í talstöðina. Og Eskfirðingarnir ákveðið að sýna puttann á móti. Það er önnur gömul þjóðaríþrótt…