Bíladella

Ég hef aldrei haft bíladellu. Í mínum huga eru bílar fyrst og fremst frekar ómerkileg tæki sem koma manni frá einum stað til annars. Lengi vel skildi ég ekki hvernig fólk gat haft svona mikinn áhuga á þessum dauðu hlutum eða séð í þeim sérstaka fegurð.

Fyrir áratug eða þar um bil fór ég í safnaferð til Þýskalands. Í Munchen heimsótti hópurinn BMW-safnið og þar sem í hópnum voru mektarmenn, bauð fyrirtækið okkur að skoða byggingu sem var lokuð almenningi. Eftir að hafa lofað að taka ekki ljósmyndir á ferðalaginu, var okkur hleypt inn í margra hæða hús sem var smekkfullt af bílum og mótorhjólum.

Þarna inni geymdi fyrirtækið eintök af flestöllum þeim bílgerðum sem það hafði framleitt í langri sögu sinni. Hlið við hlið stóðu vagnar af ólíkum árgerðum, sem margar hverjar virtust alveg eins þar til nánar var að gáð. Þessi bygging var ekki í tengslum við safnið. Hún var ætluð bílhönnuðum fyrirtækisins, til að þeir gætu stúderað sögu BMW-bílanna og legið yfir minnstu smáatriðum. Við að skoða þennan hafsjó bíla skildi ég loksins bíladellufólkið.

Á morgun geta bíladellumenn skoðað bensínháka Cadillac-klúbbsins á menningarsamkomunni Klóak og kadilakk í og við skólpdælu- og hreinsistöð Orkuveitunnar að Klettagörðum 14. Opið frá 16-18 & fjölbreytt skemmtiatriði í boði. Hvern hefur ekki dreymt um þetta?