Fyrir nokkrum árum kom ég að því í vinnunni að gefa út póstkort með myndum af gömlum frímerkjum sem sýndu íslenskar virkjanir. Þetta voru glæsileg frímerki og póstkortin reyndust afar vinsæl.
Áður en farið var í prentunina vöknuðu hins vegar spurningar um hvort ekki þyrfti að fá leyfi fyrir útgáfunni. Ég lagðist í símann og náði tali af einhverjum deildarstjóra hjá Póstinum sem hafði frímerkjamál á sinni könnu. Þetta varð bráðskemmtilegt símtal, þar sem ég fékk lærðan fyrirlestur um eitt og annað tengt frímerkjafræðum.
Strax í upphafi símtalsins fékk ég reyndar að vita að fyrirspurnin væri óþörf. Ég var fræddur um það að samkvæmt alþjóðlegum póstsáttmálum, væri öllum heimilt að birta myndir af frímerkjum án þess að hefðbundnar höfundarréttarreglur giltu (nema þá mögulega varðandi sæmdarrétt) – þó aðeins þannig að myndin sýndi allt frímerkið. Um leið og mynd væri klippt út af frímerki, gæti önnur staða komið upp.
Þetta finnst mér áhugaverðar upplýsingar, sem gætu haft hagnýtt gildi.
Íslenska Wikipedian er afar fátæk af myndskreytingum (og það sama gildir um greinar á erlendum Wikipedium um íslensk málefni). Ástæðan eru þær ströngu kröfur sem gerðar eru til myndefnis á Wikipediunni með tilliti til höfundarréttar. Með því að túlka íslensk höfundarréttarlög mjög þröngt, en nær vonlaust að reyna að nota myndefni á netinu. – Hér gæti frímerkjaglufan því komið sér vel.
Íslenska póstþjónustan hefur gefur gefið út fjölda frímerkja með myndefnum sem tengjast sögu, menningu, náttúrufræði eða atvinnuháttum Íslendinga svo eitthvað sé nefnt. Vaskir Wikipediu-liðar gætu því væntanlega tekið myndir af frímerkjum í stórum stíl og hlaðið inná hinn sameiginlega myndabanka Wikipediunnar. Það gæti snarbætt myndaúrvalið á þeim bænum.