Frímerki og höfundarréttur

Fyrir nokkrum árum kom ég að því í vinnunni að gefa út póstkort með myndum af gömlum frímerkjum sem sýndu íslenskar virkjanir. Þetta voru glæsileg frímerki og póstkortin reyndust afar vinsæl.

Áður en farið var í prentunina vöknuðu hins vegar spurningar um hvort ekki þyrfti að fá leyfi fyrir útgáfunni. Ég lagðist í símann og náði tali af einhverjum deildarstjóra hjá Póstinum sem hafði frímerkjamál á sinni könnu. Þetta varð bráðskemmtilegt símtal, þar sem ég fékk lærðan fyrirlestur um eitt og annað tengt frímerkjafræðum.

Strax í upphafi símtalsins fékk ég reyndar að vita að fyrirspurnin væri óþörf. Ég var fræddur um það að samkvæmt alþjóðlegum póstsáttmálum, væri öllum heimilt að birta myndir af frímerkjum án þess að hefðbundnar höfundarréttarreglur giltu (nema þá mögulega varðandi sæmdarrétt) – þó aðeins þannig að myndin sýndi allt frímerkið. Um leið og mynd væri klippt út af frímerki, gæti önnur staða komið upp.

Þetta finnst mér áhugaverðar upplýsingar, sem gætu haft hagnýtt gildi.

Íslenska Wikipedian er afar fátæk af myndskreytingum (og það sama gildir um greinar á erlendum Wikipedium um íslensk málefni). Ástæðan eru þær ströngu kröfur sem gerðar eru til myndefnis á Wikipediunni með tilliti til höfundarréttar. Með því að túlka íslensk höfundarréttarlög mjög þröngt, en nær vonlaust að reyna að nota myndefni á netinu. – Hér gæti frímerkjaglufan því komið sér vel.

Íslenska póstþjónustan hefur gefur gefið út fjölda frímerkja með myndefnum sem tengjast sögu, menningu, náttúrufræði eða atvinnuháttum Íslendinga svo eitthvað sé nefnt. Vaskir Wikipediu-liðar gætu því væntanlega tekið myndir af frímerkjum í stórum stíl og hlaðið inná hinn sameiginlega myndabanka Wikipediunnar. Það gæti snarbætt myndaúrvalið á þeim bænum.

Join the Conversation

6 Comments

 1. Væri ekki einfaldara að breyta höfundarréttarlögunum og láta frímerkjaákvæðið taka til Wikipædia og ámóta almannahagsapparata, sem ekki eru rekin í ágóðaskyni? Settu Atla í málið!

 2. Er ekki hluti af vandamálinu að Wikipedian hefur sjálf verið að setja sér reglur um að allt myndefni sem þar birtist skuli vera öllum heimilt til notkunar og þannig bundið hendur sínar?

 3. Commons (sameiginlegt geymslusvæði efnis) er með strangar reglur, þar sem allt efni þar sem þar er geymt á að vera hverjum manni frjálst að nota eins og honum hugnast, hvort sem er í atvinnuskyni eða ei.

  Því hefur íslenskum byggingum verið eytt þar út þar sem í fæstum tilfellum eru 70 ár liðin frá andláti arkitektsins.

  Hver wikipedia um sig getur hins vegar geymt efni sem má telja til „fair use“ enda komi það fram í leyfi myndarinnar á geymslusvæði viðkomandi Wikipediu. Þannig getur Hallgrímskirkja verið til í 70 eintökum á 70 wikipedium en má ekki vera á commons.

 4. En þá er aftur spurningin hvort frímerkjafléttan sé ekki leið fram hjá þessu. Hafi byggingin ratað inn á frímerki, má birta mynd af því – óháð því hvort tilskilinn tími sé liðinn frá dauða arkitektsins.

 5. Ég hef tekið eftir því að greinar sem hafa með færeysk viðfangsefni að gera á ensku útgáfu Wikipediu eru gjarnan skreyttar með frímerkjamyndum. Væntanlega vegna þess að þær eru í almenningi (public domain).

 6. Þetta er mjög vafasamt með þessi færeysku frímerki.

  Það er rétt hjá Stefáni að Wikipedia tekur sjálfa sig í gíslingu til að stuðla að því að til verði meira frjálst efni. Ef menn gætu fengið að birta efni á Wikipediu undir takmörkuðum leyfum myndu margir gera það – en þar sem einu möguleikarnir eru ‘frjálst leyfi eða vertu úti’ þá kjósa margir frjálst leyfi.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *