Skriftarstóllinn

Hvellurinn út af Geirs Waage-málinu vekur upp ýmsar spurningar fyrir okkur sem ekki þekkjum launhelgar kirkjunnar.

Þegar er búið að spyrja augljósu spurningarinnar: hvort sr. Geir myndi virkilega ekki tilkynna það ef hann fengi upplýsingar um pedófíl? Geir segir svo ekki vera.

Næsta spurning væri svo til sr. Bjarna Karlssonar og félaga, sem krefjast brottreksturs kollega síns: hvar þeir vilji þá setja mörkin varðandi trúnaðarskylduna? Erum við bara að tala um brot sem snúa að börnum? Myndi sr. Bjarni tilkynna um líkamsárás gagnvart fullorðnum einstaklingi? Myndi hann fletta ofanaf fíkniefnasala? – Þetta þarf sr. Bjarni að skilgreina býsna nákvæmlega. Annars er þagnarskylda hans nálega ónýt, eins og sr. Geir bendir á.

Þriðja og stærsta spurningin hlýtur þó að vera sú: hvort nokkur maður skrifti hjá lútersku þjóðkirkjunni? Einhvern veginn hljómar það frekar eins og óskhyggja kirkjunnar að skúrkar landsins keppist við að trúa sóknarprestum sínum fyrir ódæðum sem farið hafa fram hjá löggunni og félagsmálayfirvöldum? Eru menn ekki frekar að lýsa plotti úr e-m Law & Order-þættinum en hversdagslegum veruleika íslenskra sálnahirða?

Join the Conversation

9 Comments

 1. Í starfsreglum þjóðkirkjunnar um kynferðislegt ofbeldi er beinlínis kveðið á um það að ef kirkjunnar þjóni berst vitneskja um kynferðislegt ofbeldi gegn barni beri honum að tilkynna það. Ekkert slíkt ákvæði er til um fíkniefnasala svo ég viti til. Skilgreiningin gæti því verið á þá leið að tilkynningaskyldan trompi trúnaðarskylduna í samræmi við starfsreglur. Er það ekki nokkuð skýrt?

 2. Er ekki öllum ljóst að Reykholtsklerkurinn tekur sjálfan sig afar hátíðlega og hefur alltaf gert. Sosum enginn annar tekur hann hátíðlega og ég stórefast að hann þyki merkilegur í efri hæðum.

 3. Geir er oftast góður mælikvarði á skoðanir þeirra sem hafa völdin innan þjóðkirkjunnar.

 4. Á fundinum 2007 þegar þessi mál voru rædd var séra Geir ekki sá eini með þessa skoðun. Merkilegt nokk þá bað enginn um afsögn hans þá. Það er ekki fyrren að þessi mál ná til almennings sem kirkjunnar menn verða svona hneykslaðir á þessu.

 5. Fyrir það fyrsta þá eru skriftir mögulegar í lúthersku kirkjunni. Hins vegar fer slíkt oftast fram í formi syndajátningar í lúthersku kirkjunni. Þær sem hafa heimsótt kirkju rekur e.t.v. minni til orðanna:

  Prestur: Játum syndir vorar og lifum í kærleika og sátt við alla menn.
  Allir: Ég játa fyrir þér, almáttugi Guð, skapari minn og lausnari, að ég hef margvíslega syndgað í hugsunum, orðum og gjörðum. Fyrirgef mér sakir miskunnar þinnar og leið mig til eilífs lífs til dýrðar nafni þínu.
  Prestur: Almáttugur Guð fyrirgefi yður allar syndir, styrki yður og leiði til eilífs lífs fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

  Reynsla Lúther var sú að við erum aldrei meðvituð að fullu um þær syndir sem við drýgjum. Sé ítarleg upptalning á misgjörðum sett sem skilyrði fyrirgefningar Guðs leiði það til samviskukvala sem engum sé til gagns. Þannig sé ekki meginatriði að telja upp hverja og eina synd, heldur iðrast allra misgjörða sinna og leita fyrirgefningar. Þessi sýn dróg verulega úr þörf á einkaskriftum.

  Skriftir í einrúmi eru hins vegar ekki útilokaðar í lúthersku kirkjunni, en þar sem þær hafa ekki gildi sem sakramenti (tilskipaðar af Guði) er þagnarskyldan ekki algjör heldur byggðar á samviskufrelsi prestsins (Hér stend ég og get ekki annað).

  Þagnarskylda presta er aldrei sterkari en það traust sem viðkomandi safnaðarbarn hefur á prestinum. Þannig getur raunveruleg þagnarskylda aldrei byggt á öðru en trausti milli einstaklinga og lagabókstaf sem hamlar þagnarskyldu.

  Sú röksemdafærsla Geirs að vilji presta til að fara að lögum dragi úr trausti til presta almennt er að mínu mati röng. Þröngsýni Geirs gæti þvert á móti leitt til minnkandi trausts til prestastéttar almennt, og þannig gengið gegn því sem Geir heldur að hann sé að verja.

  Mörk þagnarskyldunnar byggja því alltaf á samviskufrelsi prests og því trausti sem hann byggir upp gagnvart sóknarbarni sínu, nema lög takmarki þagnarskylduna.

 6. Umræðan hefur aðallega snúist um hugsanlegar játningar níðinga fyrir presti. Og því er gólað um yfirhylmingu, að síra Geir vilji stuðla að barnaníði og ég veit ekki hvað.

  Málkunningi í prestastétt segist raunar engin dæmi þekkja um játningar níðinga. Hins vegar hafi verið nokkuð um að brotaþolar upplýsi um áníðslu í trausti trúnaðar. Það fólk (nær allt á unglingsaldri) komi flest vegna þess að það telji sig ekki hafa í önnur hús að venda til þess að eiga þetta skelfilega samtal.

  Og já, eitthvað mun vera um eiginlegar skriftir, ekki síst á spítölunum er fólk óttast leiðarendinn sé skammt undan. Hvort þar eru játaðar margar stórsyndir er svo önnur saga, tæpast efniviður í Réttur er settur, grunar mig.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *