D-gata

Tímaritavefurinn er endalaus uppspretta skemmtunar.

Var að nördast í gömlum dagblöðum að lesa um götuheitin í Norðurmýrinni. Í ársbyrjun 1937 gerðu Sigurður Nordal, Ólafur Lárusson og Pétur Sigurðsson fram tillögur um nöfn gatnanna og sóttu þau í sagnir af landnámi Reykjavíkur annars vegar en Laxdælu hins vegar.

Norðurmýrin hafði hins vegar verið skipulögð nokkru fyrr og uppbygging hverfisins hafin. Í tillögum þremenninganna er því talað um að A-gata skuli heita Skarphéðinsgata, B-gata Karlagata o.s.frv. (Ekki voru enn komnar neinar götur sunnan Flókagötu/N-götu, en þeim voru þó gefin nöfn í leiðinni.)

Það fróðlega er að götur þessar (eða vísar að götum) virðast hafa gengið undir þessum stofnanalegu heitum. Þannig má sjá í Nýja dagblaðinu í október 1936 að kviknað hafi í húsinu C-götu 1. Fyrr í sama mánuði er tilkynning í Nýja dagblaðinu um að næturlæknir á vakt sé Axel Blöndal, D-götu 1 (síðar Mánagötu 1).

Lausleg og afar óvísindaleg leit á Tímaritavefnum sýnir vísanir til húsa við A-götu, B-götu o.s.frv. allt frá maí 1936, en nafngiftirnar gætu samt hæglega verið eitthvað eldri.

Eftir stendur þessi skemmtilega vitneskja – að Mánagatan hét upphaflega D-gata. Og í ljósi þess hvað borgaryfirvöldum er mikið í mun að færa nöfn opinberra svæða til eldra horfs þyrfti ég ekki að vera hissa þótt nýi meirihlutinn breyti þessu aftur á næstunni. Það má svo sem alveg venja sig við það að búa í D-götu 24.

Join the Conversation

1 Comment

  1. Og kemur sumsé væntanlega núna í ljós hvort borgaryfirvöld bera gæfu til að finna sjálfum sér takmörk í því skemmtilega sem þau taka sér fyrir hendur. Nema náttúrulega þeim sé mjög illa við einhvern sem býr í Norðurmýri, eða séu hreinlega bara sökkerar fyrir því að ganga fram af fólki.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *