Um óðu mennina

Andri Snær Magnason skrifar mikla grein í Fréttablaðið í dag, sem allir ættu að lesa. Sérstaklega þeir sem munu aldrei gera það.

Í greininni víkur Andri að einu og öðru varðandi þróun íslenskra orkumála síðustu árin. En hann kemur líka inn á Einar Ben…

Virkjunarhugmyndir Einars Ben og félaga í Þjórsá voru með hreinum ólíkindum. Virkjanaröðin samkvæmt þessum hundrað ára gömlu hugmyndum hefði gefið af sér afl eins og Kárahnjúkavirkjun. Allt reist með tækni og búnaði áranna upp úr 1900.

Það er alveg rétt hjá Andra Snæ að þessar hugmyndir voru rugl. Algjör steypa (í eiginlegri og óeiginlegri merkingu) og raunar gjörsamlega galnar. Þær voru svo galnar að maður ætti eiginlega ekki að sýna þeim þá virðingu að byrja á að benda á hvar galskapurinn byrjar.

Þetta vita í raun allir þeir sem hafa skrifað um sögu rafvæðingarinnar á Íslandi – hvort sem er í bókum, á sýningum eða öðrum vettvangi. (Og það er raunar ótrúlega stór hópur. Það eru glettilega margar bækur sem komið hafa út um íslenska raforkusögu.)

En það segir þetta samt enginn. Langar greinar hafa verið skrifaðar um fossadraumana í upphafi tuttugustu aldar. Sagnfræðingar hafa stúderað viðskiptaævintýri EInars Ben. – þannig var miðbindið í trílógíu Guðjóns Friðrikssonar um skáldið nær einvörðungu um þær æfingar (og var langbesta bókin í bókaflokknum, þótt almenningi þætti hún minnst spennandi). Og svo eru það öll yfirlitsritin um sögu stóru veitufyrirtækjanna…

Alltaf víkja menn að Einari Ben og alltaf á sama hátt. Hugmyndirnar eru annað hvort teknar alvarlega og leitað skýringa á því hvers vegna þær strönduðu (pólitísk andstaða hér heima er vinsæll sökudólgur) – eða hugmyndirnar eru afgreiddar kurteislega sem „stórhuga“, „ef til vill of metnaðarfullar“ eða „á undan sinni samtíð“. Ég hef sjálfur kóað með í þessu. Það hanga myndir af Einari Ben og einni af fyrirhuguðum virkjunum Títans-félagsins uppi á vegg á Minjasafninu ásamt e-m almennt orðuðum texta um metnað og stórhug.

Ég er alltaf að hitta fólk í tengslum við vinnuna – reyndar eiginlega bara karlmenn um og yfir miðjan aldur – sem fer að ræða um Einar Ben og stóru virkjunaráformin. Voru Íslendingar ekki bara of miklir molbúar fyrir þetta? Hvað hefði breyst ef…?

Einhverra hluta vegna er ruglið í Einari Ben meðhöndlað í sögunni sem alvöru tillögur sem hefðu getað komið til framkvæmda, á meðan álíka loftkastalasmíð Sigurðar málara um þróun Reykjavíkur er afgreidd eins og vera ber: sem draumórar listamanns með ríkara ímyndunarafl en veruleikaskyn.

Allir sagnfræðingar? Sagði ég allir sagnfræðingar? Afsakið… allir nema einn. Skúli Sigurðsson vísindasagnfræðingur er einn klárasti maður sem ég hef kynnst. Fyrir mörgum árum vann hann að ritun rafvæðingarsögu sem hvorki hann né verkkaupinn – íslensku veitufyrirtækin – báru gæfu til að klára.

Skúli afgreiddi Einar Ben snyrtilega í handriti sínu. Skaut hann einfaldlega í kaf og neitaði að kóa með bullinu. Fyrir 15-20 árum var engin stemning fyrir því hjá íslenskum raforkuköllum að afbyggja Einar Ben, sem aftur kann að vera hluti af skýringunni á að handritið var aldrei klárað og búið til útgáfu.