Fór í kvöld á Ölver og horfði á Luton rúlla yfir Wimbledon, 3:0. Leikurinn var reyndar furðu fjörugur og spennandi þrátt fyrir muninn.
Annað markið okkar var skalli í bláhornið eftir langt innkast. Jake Howells,einn miðjumanna Luton, tekur innköst sem minna á Rory Delap í úrvalsdeildinni og olli miklum usla í hvert sinn sem hann kastaði boltanum inn í miðjan vítateig.
Eins og þegar Delap tekur innköstin sín á heimavelli Stoke, hljóp alltaf vallarstarfsmaður til Howells með handklæði og gaf hann sér góðan tíma til að þurrka boltann áður en látið var vaða.
Í mínum huga jaðrar þetta við að vera svindl. Ekki stökk neinn boltastrákur til þegar Wimbledon fékk innköst og rétti viðkomandi handklæði. Geri það að þurrka boltann leikmanninum auðveldara fyrir að henda honum langt er því um mismunun að ræða. Hefur aldrei verið rætt um að taka á þessari handklæðavitleysu?