Sveitarafstöðvar

Þegar ég segi fólki sem komið er yfir miðjan aldur frá því hvað ég starfi við, fæ ég ótrúlega oft viðbrögðin: „Aha – orkusaga. Hvernig er það, hefur eitthvað verið fjallað almennilega um sveitarafstöðvavæðinguna íslensku?“

Viðbrögð mín við þessari spurningu eru yfirleitt á þá leið að stama e-ð um að það hafi nú verið skrifað eitthvað aðeins um Bjarna í Hólmi, auk þess sem gerð hafi verið heimildarmynd um störf hans. Þá hafi Þórólfur Árnason, fv. borgarstjóri, skrifað ágæta grein um sveitarastöðvar í einni sveitinni á Suðurlandinu. Að öðru leyti dettur mér ekki margt í hug.

Fyrir helgi rak ég nefið inn á Þjóðskjalasafnið. Tilefnið var að langsótt ágiskun um að hægt væri að finna þar upplýsingar um gamla dísilrafstöð á Hellu og vindmyllu sem var kannski sett þar upp árið 1940. Sú leit bar ekki árangur.

Hins vegar komst ég í skjalabunka frá Rafmagnseftirliti ríkisins frá fjórða áratugnum, þar sem sendur hafði verið út spurningalisti til eigenda vatnsaflsvirkjanna til sveita. Það reyndist hreinasta veisla.

Ég hafði ekki hugmynd um að svona góðar og nákvæmar upplýsingar væru til og lægju á lausu. Þarna eru upplýsingar um byggingarár, hönnuði, afltölur, rekstrarvandamál, sparnað o.s.frv. Þessi gögn, sem liggja bara og bíða eftir að þeim sé sinnt, eru frábært efni í BA-ritgerð í sagnfræði hið minnsta og borðleggjandi fyrir alla þá sem rita sögu einstakra héraða og sveita á Íslandi.

…en ekkert um Hellu, illu heilli.