Þúsundárahúsið

Var að lesa mér til um byggingarsögu Vífilsstaðaspítala, þegar ég rakst á ræðu Guðmundar Björnssonar sem haldin var í reisugillinu síðla árs 1909. Þar hefur Guðmundur stór orð um hve reisulegt mannvirkið sé og setur í samhengi við húsagerðarsögu Íslendinga.

Hann hóf mál sitt á að ræða um ævagömul mannvirki í öðrum menningarsamfélögum sem væri haldið við til minningar um dugnað forfeðranna. Hér væri slíku ekki til að dreifa:

„Við vitum vel hvað verða mun; áður en þessi nýrunna öld er liðin á enda, verða öll torfhúsin okkar fallin og ekkert eftir af timburhúsunum nema þá fáeinir kumbaldar, grautfúnir, skakkir og skældir, okkur til skammar. Og þessi fáu steinhús, sem til eru — þau kunna að geta staðið af sér eina eða tvær aldir, sum þeirra, ef vel lætur.“

En með byggingu Vífilsstaðaspítala, taldi Guðmundur, hefði Ísland loks eignast hús sem vænta mætti að gæti staðið í 1.000 ár: „Jafn traust hús hefir aldrei verið reist hér á landi: það stendur á klöpp og er alt ein klöpp, í hólf og gólf. ein steinstorka, svo trygg og traust, að henni er eflaust óhætt í þúsund ár, ef jörðin skekur hana ekki af sér, eða niðjar okkar hætta að unna henni sóma og viðhalds.“

Og það er óhætt að segja að læknirinn hafi horft langt fram í tímann: „Farnist því vel — þessu veglega minnismerki núlifandi kynslóðar; standi það heilt á húfi öld eftir öld. í þúsund ár; verði það jafnan athvarf þeirra, sem sjúkir og bágstaddir eru; gefi það gæfan, að húsið standi óhaggað 13. nóv. 2909, og þá verði uppi íslenzkir menn, okkar niðjar, er minst geti með fögnuði umliðinna alda, en ekki með harmi, eins og við hljótum að gera.“

2909 er enn langt undan og miðað við núverandi ásigkomulags Vífilsstaðaspítala má teljast ólíklegt að draumur Guðmundar Björnssonar verði að veruleika. En hvaða mannvirki 20.aldar ætli lifi það að standa í 1.000 ár? Það koma nú ekki mörg hús upp í hugann.