Vænisýki

Á fimmta hundrað manns hafa nú boðið sig fram til stjórnlagaþings. Það er helvítis hellingur af fólki.

Allir þessir frambjóðendur hafa safnað vænum slatta meðmælenda. Sjálfur skilaði ég inn fimmtíu nöfnum. Söfnunin tók dálítin tíma, einkum vegna þess að ég ákvað af nördaskap mínum að leggja mikið upp úr því að samsetningin yrði sem fjölbreytilegust. Þannig setti ég mér í upphafi þá vinnureglu að fá enga nákomna ættingja, engin hjón, enga nágranna eða vinnufélaga – heldur fólk af öllum aldri, búsetu, menntun o.s.frv. Mamma og pabbi, tengdó og Þóra systir eru örugglega öll sármóðguð yfir að hafa ekki fengið að skrifa. Steinunn var notuð sem vottur…

Reyndar sprakk ég á limminu. Þegar langt var liðið á söfnunina, rakst ég inn í matarboð þar sem allir pennar voru á lofti. Þar komu sex undirskriftir á einu bretti úr sömu stórfjölskyldunni. – Annars er ég rígmontinn með niðurstöðuna. Það er smákynjaslagsíða (23 konur: 27 karlar). Tólf meðmælendur eru utan af landi. Yngsti er 20 ára, þær elstu (tvíburar – og einu systurnar á listanum) eru 88 ára. Þarna eru heiðursdoktorar og verkamenn. Sjálfstæðismenn og últra-róttæklingar. Sem sagt, gott.

Þrátt fyrir þennan nördaskap minn (sem engum nema 10-15 rétttrúnaðarmönnum í meðmælendasöfnum finnst svalur) tók þetta mig varla nema þrjú kvöld. Á fimmta hundrað Íslendinga gerðu slíkt hið sama: prentuðu út meðmælalista og söfnuðu undirskriftum.

Það er því skemmtilegt að rifja upp viðbrögð ýmissa þegar reglurnar um kosningu til stjórnlagaþings voru fyrst kynntar. Þá lýsti Þór Saari þingmaður (Borgara)Hreyfingarinnar því yfir að búið væri að eyðileggja stjórnlagaþingið. Samkvæmt því voru kröfurnar um meðmælendafjölda svo ofurmannlegar að útilokað yrði fyrir aðra en innvígða og innmúraða flokkshesta að smala því saman. (Svo allrar sanngirni sé gætt, þá ritaði Valgerður Bjarnadóttir Samfylkingarþingmaður pistla á sömu nótum.)

Fimmtíu meðmælendur voru sem sagt sá ógurlegi þröskuldur sem enginn kæmist yfir nema fuglinn fljúgandi. Hrikalegur skandall, plott og samsæri.

Í ljósi fáránlega góðrar þátttöku í stjórnlagaþingskjöri væri óneitanlega gaman að sjá núna viðtal við Þór Saari um hinar fasísku framboðsreglur.