10 sögulegar hagtölur á degi hagtölunnar

1. Árið 1937 voru 478 smásöluverslanir í Reykjavík, það var þá rétt rúmlega helmingur slíkra verslana á landinu öllu.

2. Lýðveldisárið 1944 tóku Reykvíkingar 124.422 bækur að láni hjá Bæjarbókasafninu, þar af 87.258 skáldrit.

3. Hæst brunabótaverð opinberrar byggingar í Reykjavík árið 1951 var á Þjóðleikhúsinu, 16.689.000 kr. Þar á eftir komu Landsspítalinn, aðalbygging Háskólans og Sjómannaskólinn – allar á bilinu 10-11 milljónir.

4. Árið 1942 fóru 29.088 manns í steypibað í Baðhúsi Reykjavíkur, en 1.988 fóru í kerlaug.

5. Veturinn 1943-4 voru 10-11 ára börn í Miðbæjarskólanum um 2-3 sentimetrum hærri að meðaltali en jafnaldrar þeirra í Melaskóla, Austurbæjarskóla og Laugarnesskóla.

6. Árið 1940 töldust 1,5% íbúa Reyjavíkur starfa við eða hafa framfæri sitt af landbúnaði.

7. Minnsta breidd gangstéttar í Reykjavík í árslok 1950 var við Kolasund, 2,0 metrar en gatan sjálf var 5 metrar á breiddina. Amtmannsstræti var einnig meðal þrengstu gatna. Gatan sjálf taldist 5,4 metrar á breidd en gangstéttin 2,8 metrar – sem er til marks um ótrúlega nákvæmni mælingarmannsins.

8. Árið 1951 þáðu sex hjón í Reykjavík framfærslustyrk frá sveitarfélaginu vegna ómegðar en 25 vegna drykkjuskaps og óreiðu. Vanheilsa eða atvinnuleysi voru þó algengustu ástæður þess að hjónafólk þáði sveitarstyrk.

9. Á árinu 1947 gaf lögreglustjórinn í Reykjavík út 23 sveinsbréf í húsasmíði, 30 í hárgreiðslu, 17 í rafvirkjun og 2 í glerslípun og speglagerð.

10. Árið 1945 notuðu um 84.000 manns náðhúsið karla í Bakarabrekkunni. (Náðhús kvenna hafði væntanlega ekki opnað þá.)

Þessar hagtölur eru fengnar úr Árbókum Reykjavíkurbæjar 1950-51.

Join the Conversation

2 Comments

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *