Hjólastólahandbolti

Þessi fréttatilkynning frá HK er stórmerkileg. Með þessu hefur HK formlega tekið upp hjólastólahandbolta á íþróttaskrá sína. Hér er um tímamótaviðburð að ræða. Til þessa hafa íþróttir fatlaðra verið rækilega afmarkaðar í sérstökum íþróttafélögum fatlaðs fólks. Mér sýnist að HK verði því fyrsta hefðbundna íþróttafélagið til að taka þessar greinar inn til sín á jafnréttisgrundvelli.

Ég sem Framari verð pínkulítið öfundsjúkur við lestur fréttarinnar. Nú er ljóst að hjólastólahandboltalið HK verður að hafa einhverja andstæðinga, ef vel á að vera. Væri ekki rakið að það yrðu Framarar? (Reyndar er ég ekki viss um að íþróttahúsið í Safamýrinni sé fyllilega aðgengilegt fyrir stóra hópa fólks í hjólastólum – en nýja íþróttahúsið í Úlfarsárdalnum mætti amk hanna með þetta í huga frá upphafi…)